133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:27]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf) (andsvar):

Herra forseti. Ríkisendurskoðun bendir á það fyrir rúmu ári, í október 2005, að gera þurfi þessar breytingar, að samræma þurfi vistunarmatið, að gera þurfi þessar breytingar sem verið er að leggja til. Hér kemur frumvarp sem ráðherra leggur til að gert verði að lögum á vorþinginu en það á ekki að taka gildi fyrr en í janúar 2008. Hvers vegna er verið að bíða með það til janúar 2008? Hæstv. ráðherra á eftir innan við þrjá mánuði í embætti og Ríkisendurskoðun bendir á þetta fyrir rúm ári. Hvaða slóðaháttur er þetta?

Við vitum að það er alls ekkert samræmi í vistunarmatinu. Það sjá allir sem hafa fylgst með þessum málaflokki. Ég verð að segja, herra forseti, varðandi þetta tal um gerð hafi verið könnun á því hve margir sem eru á hjúkrunarheimilum gætu að eigin mati verið heima hjá sér, að þá er ég alveg sannfærð um að það eru ekki hjúkrunarsjúklingarnir á höfuðborgarsvæðinu því að þar kemst enginn inn á hjúkrunarheimili nema … (Gripið fram í.) Sem er á biðlistunum? Fólk fær ekki einu sinni vistunarmat nema það sé orðið mjög illa statt heilsufarslega. (Gripið fram í.) Jú, það er bara þannig. Fá þeir vistunarmat sem eru ekki í brýnni þörf? Ég ætla að fara í ræðu um það á eftir að það voru fréttir af því í sjónvarpinu nýverið einmitt um fólk sem er í þessari aðstöðu að það fær ekki vistunarmat og kemst ekki á biðlista.