133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:35]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Já, hér er verið að leggja upp með verulega breytingu á svokölluðu vistunarmati með því að fækka starfshópum úr 40 niður í 6–9 og færa kostnaðinn yfir á ríkið frá sveitarfélögunum. Ég sé hins vegar í umsögn fjármálaráðuneytisins að talað er um að þessi kostnaður verði á bilinu 60–70 millj. kr., að mati fjármálaráðuneytisins. Ef maður hins vegar skoðar það að 340 möt hjá Reykjavíkurborg kosta 20 millj. og 400 þús. kr., miðað við að hvert þeirra kosti 60 þús. kr., þá sýnist mér að það sé ekki víst að menn séu að spara með þessu fyrirkomulagi og ég dreg þá ályktun vegna þess að hér erum við að fækka þessum hópum niður í 6–9 á landinu öllu og ráðherra leggur það upp að hér sé verið að stofna til þess að auka faglegt mat o.s.frv. og skal ekki gert lítið úr því. En ég sé ekki í umsögn fjármálaráðuneytisins hvernig þeir í raun og veru meta þetta. Við erum að tala um 1.700 vistunarrými á landinu öllu og ef þau eru áfram 1.700 eða fjölgar, þá geri ég ráð fyrir að það þurfi allverulegan ferðakostnað ef nefndirnar eiga að vera fáar, ferða- og dvalarkostnað, og það lendir væntanlega á ríkinu. Ég dreg það því mjög í efa að hér sé verið að setja fram réttar tölur varðandi kostnað og að nefndum fækki þá held ég að kostnaður við ferðalög og ég tala ekki um að þegar eru teknir inn í þetta fagaðilar eins og læknar og hjúkrunarfólk þá kostar það auðvitað sitt. Ég spyr ráðherrann hvort hann telji að þær tölur sem hér er rætt um fái yfirleitt staðist.