133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:39]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hér segir að meðalkostnaðurinn við matið í Reykjavík sé 60 þúsund. Hér er gert ráð fyrir að meðalkostnaðurinn við matið verði 35–40 þús. Svo segir hæstv. ráðherra að ekki sé ætlunin að spara í þessu en það virðist vera gengið út frá því að kostnaðurinn minnki um hvorki meira né minna en lágmark 20 þús. að meðaltali í hverju mati þrátt fyrir að hér sé verið að setja inn fagaðila sem væntanlega taka kaup fyrir vinnu sína. Og miðað við að þeim fækki þá hlýtur ferðakostnaður að aukast þó ég geri ekki lítið úr því að það fólk sem vinnur þessi verk og með því að það sé sama fólkið að vinna það að ekki sé það á mörgum stöðum þá fylgir því fagþekking og hóparnir verði kannski betur hæfir til að vinna þessa vinnu. Ég verð að segja það, hæstv. forseti, að ég átta mig alls ekki á því hvernig þessi tala, 35–40 þúsund, er fengin þegar hvert mat kostar 60 þús. í dag og átta mig ekki á því að þessar upplýsingar skuli vera byggðar á upplýsingum heilbrigðisráðuneytisins sem það hafi gefið fjármálaráðuneytinu. Mér finnst vanta mikið upp á það að hér séu réttir útreikningar kostnaðarlega séð og ég tel að þegar til kemur að nefndunum verði fækkað þá hljóti ferðakostnaður og dvalarkostnaður að aukast, fyrir utan það að við erum að setja fagfólk inn í þessar nefndir. Mér vitanlega er það fólk ekki með minni laun en það hefur verið í þessum nefndum áður þó að ég viti ekki nákvæmlega hvernig þær hafa verið skipaðar, hæstv. forseti. En ég verð að segja að ég leyfi mér að draga þá útreikninga sem hér eru settir á blað mjög í efa.