133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:43]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Herra forseti. Ég get ekki annað en tekið til máls, af því verið er að ræða hjúkrunar- og vistunarmál, vegna þess hvernig ástandið er. Hæstv. ráðherra segir að við séum að hýsa hlutfallslega fleiri inni á stofnunum en nágrannalöndin. Það þarf að skoða í því ljósi að enn þann dag í dag erum við með hjúkrunarheimili annars vegar og dvalarheimili hins vegar. Ef við horfum á það allt í einum pakka sem stofnanir er kannski ekkert óeðlilegt að niðurstaðan sé sú að við séum að hýsa hlutfallslega fleiri. En það er eftir sem áður staðreynd að hjúkrunarheimili vantar. Það vantar fleiri hjúkrunarpláss.

Í dag bíða hátt í 400 manns eftir hjúkrunarvist. Yfir 900 manns eru í þvingaðri samvist með öðrum ókunnugum, einum, tveimur, jafnvel fleirum, í herbergi. Á föstudaginn kannaði ég hversu margir væru á Landspítala – háskólasjúkrahúsi sem kæmust ekki þaðan út vegna þess að ekki eru til hjúkrunarrými fyrir þá. Þeir eru 70 núna um helgina, 70 manns.

Við þekkjum líka dæmi um hjón eða pör sem hafa verið aðskilin, ekki endilega svo margir sem hafa verið vistaðir hvor á sínu heimilinu þó of mörg dæmi séu um það, alls ekki mörg en of mörg. Það gerist líka að annar aðilinn fer inn á hjúkrunarheimili, flytur að heiman inn á stofnun, en makinn eða sambýlisaðilinn er eftir heima. Við þekkjum alveg hvaða áhrif það hefur. Það hefur margoft komið fram hjá þeim sem fjalla um heilbrigðismál að við það að skilja aldraða að á þennan hátt hrakar heilsu þeirra og vanlíðan eykst. Þau dæmi sem hafa verið í fjölmiðlum undanfarið, og nú síðast dæmið á Akureyri, sýna hvaða áhrif það hefur á heilsufar fólks að lenda í þessu.

Ég er með bunka af ályktunum sem voru samþykktar á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík á laugardaginn, í fyrradag. Það er greinilegt að öldruðum er það mikið áhyggjuefni hvernig ástandið er í þessum málum, í hjúkrunarmálunum, hvað varðar stöðu fólks sem bíður, sérstaklega hér í Reykjavík og á höfuðborgarsvæðinu, og hvað varðar það fólk sem lendir í aðskilnaði. Á aðalfundinum var samþykkt ályktun þar sem segir, með leyfi forseta:

„Aðalfundur Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, haldinn á Hótel Sögu 17. febrúar 2007, skorar á heilbrigðisráðherra og landlækni að þeir beiti sér nú þegar fyrir því að stjórnum og starfsfólki hjúkrunarheimila verði gert óheimilt að stía öldruðum hjónum í sundur þegar annað þeirra þarf nauðsynlega á vistun að halda. Stjórnendum verði gert skylt að finna ráð til að hýsa hjónin saman óski þau eftir því.“

Áskorunin var samþykkt samhljóða á aðalfundi Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni. Í greinargerð með áskoruninni er vitnað í þau dæmi sem hafa verið í fréttum, í Morgunblaðinu var í fyrradag fjallað um þessi dæmi.

Það þarf að vera sveigjanleiki í þessari þjónustu. Ef maki þarf að flytja af heimili sínu inn á stofnun ætti að vera hægt að bjóða hinum aðilanum, þó að hann sé kannski ekki það illa farinn að hann fái vistunarmat upp á það að hann þurfi að fara á hjúkrunarheimili, að koma og dvelja hjá maka sínum og greiða fyrir það eins og það kostar. Einhver sveigjanleiki þarf að vera til staðar. Við sjáum hvernig fólki hrakar og er áður en varir orðið heilsulaust og komið á biðlistann.

Ég nefndi það í andsvari áðan að fólk fái ekki vistunarmat af því að það er ekki orðið nógu veikt. Um það var í fréttum dæmi frá Akureyri. Maðurinn var eftir heima en konan hans var komin inn á hjúkrunarheimili. Hann komst ekki á biðlista vegna þess að hann var ekki orðinn nógu veikur. (Gripið fram í.) Nei. Þó að fólk sé búið að missa heilsuna að einhverju leyti fær það ekki mat. Það ætti að vera hægt að gefa því vistunarmat þó það sé kannski ekki í brýnni þörf fyrir að komast inn á hjúkrunarheimili. Það ætti að minnsta kosti að vera hægt að meta það. Síðan endar það með því eftir nokkrar vikur eða mánuði að fólk er búð að missa heilsuna út af því að vera aðskilið.

Fullorðinn maður kom að máli við mig og sagði: Ég hefði aldrei trúað því að við hjónin þyrftum að skilja áður en dauðinn aðskildi okkur. Þetta sagði hann við mig eftir að konan hans var komin inn á hjúkrunarheimili og hann gat ekki fengið að fylgja henni inn í þá litlu íbúð sem hún fékk þar, eða herbergi.

Það þarf að skoða þessi mál frá fleiri hliðum. Þegar við erum að bera okkur saman við nágrannalöndin verðum við að horfa á dvalarheimilin annars vegar og hjúkrunarheimilin hins vegar. Það vantar hjúkrunarheimili. Þar bíða 400 manns í brýnni þörf. Þar eru 70 inni á Landspítala. Þar eru yfir 900 í þvingaðri samvist o.s.frv. með ókunnugum. Þar er vandinn. Þar er stóri vandinn. Þann vanda verður að leysa þó svo við séum með stóran hóp fólks inni á dvalarheimilum. Ég gat ekki annað, virðulegi forseti, en komið inn á þennan þátt.

Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra og ég þarf sjálfsagt að spyrja hana að þessu síðar vegna þess að spurningin er óviðbúin: Hvað líður bættri þjónustu við alzheimersjúklinga? Þeir voru til umræðu í kvöld í Kastljósinu. Hvað líður því að bæta úr hvíldar- og skammtímavist fyrir þá? Þar er vandinn stór og sú skammtímavist sem þeim stendur til boða er ekki boðleg. Hún er inni á Landakoti innan um fársjúkt fólk. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra áður en ég lýk máli mínu: Hver er staðan hjá þessu fólki sem ég vakti athygli á fyrr í vetur? Þar er afleit þjónusta þó svo margt mjög gott sé t.d. gert í dagvistunum. Það vantar mikið upp á. Öldruðum er að fjölga og þar með öldrunarsjúkdómum eins og alzheimer.