133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[22:52]
Hlusta

Guðjón A. Kristjánsson (Fl):

Hæstv. forseti. Það mál sem við ræðum er í sjálfu sér áhugavert. Ef hægt er að veita aukna heimaþjónustu fyrir eldri borgara er það gott. Eldri borgarar vilja auðvitað búa á heimilum sínum svo lengi sem þeir geta og það má auka tíma þeirra á eigin heimili með aukinni aðstoð. Þá getur fólk búið á heimili sínu við óbreyttar aðstæður. Það er út af fyrir sig alveg hægt að taka undir þá hugsun og þau markmið sem mér sýnist á frumvarpinu og greinargerðinni að ráðherrann sé að stefna að með því m.a. að breyta faghópunum í sex til níu fagnefndir o.s.frv.

Það kann að stuðla að skynsamlegri nýtingu á dvalar- og hjúkrunarrými og það er eftirsóknarvert markmið. Ég hugsa að enginn á hv. Alþingi leggist gegn því að það sé í sjálfu sér æskilegt markmið að þeir sem það vilja, og geta fengið aukna þjónustu til þess, geti búið heima. Það getur vissulega orðið til þess að fleiri rými losni fyrir þá sem þurfa nauðsynlega á því að halda. Undir það sjónarmið og markmið er alveg hægt að taka, hæstv. forseti.

Í greinargerðinni segir að kannanir, sem heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytið hefur staðið fyrir, hafi leitt í ljós að nokkuð hátt hlutfall aldraðra sem búið er að meta í þörf fyrir vistun á dvalarheimilum geti að eigin mati og mati aðstandenda búið áfram heima við óbreyttar aðstæður og enn fleiri með auknum stuðningi. Ef það er rétt sem hér er sagt er eftir miklu að slægjast. Það er af hinu góða og mun létta á þeirri þörf sem er til staðar í þjóðfélaginu fyrir hjúkrunar- og dvalarheimili.

Út af fyrir sig er ekkert óeðlilegt að skoða þessi mál og stefna að því að með auknum stuðningi geti fleiri aldraðir búið heima hjá sér en nú er og að enginn sé vistaður á stofnunum á röngum forsendum án þess að þörf eða vilji sé fyrir hendi, eins og einnig segir í greinargerðinni.

Þegar ég kom upp í andsvari áðan, hæstv. forseti, staldraði ég aðeins við kostnaðinn og vinnufyrirkomulagið við að ná fram því vinnuferli sem hér er lagt upp með. Ég er ekki dómbær á það hvaða árangri við munum ná eftir þessari leið. Það er annarra fagaðila að leiða það í ljós og það kemur væntanlega í ljós síðar. En ég spyr: Hvar verða þessir hópar staðsettir á landinu? Hefur hæstv. ráðherra gert sér grein fyrir því hvar þessir hópar verða staðsettir, í hvaða sveitarfélögum? Að sjálfsögðu verða hópar á Reykjavíkursvæðinu og á þéttbýlisstöðunum sunnan lands. En hvernig hyggst hæstv. ráðherra dreifa þeim um önnur kjördæmi þannig að nýting verði sem best á þessum starfshópum?

Eftir sem áður er um geysivíðfeðm svæði að ræða og ferðast þarf á milli staða. Væntanlega ætla menn að leggja mat á viðkomandi á þeim stað sem hann dvelur, þ.e. ef menn ætla að skoða heimilisaðstæður og aðra kosti sem snúa að viðkomandi þegar verið er að leggja mat á það hversu vel hann er í stakk búinn til að dvelja áfram á heimili sínu eða á hvern hátt viðkomandi sveitarfélag eða byggðakjarni geti veitt þá þjónustu sem verið er að leita eftir. Ég hef skilið hæstv. ráðherra svo að verið sé að stefna að því að draga úr því sem kallað hefur verið hjúkrunarvist og efla þá frekar þjónustu við þá sem geta verið heima. Það kann að vera ágætt markmið ef hægt er að ná því fram. En þá segi ég: Hvar verða þessir hópar staðsettir, hvaða kostnaður fylgir því og hvernig tekst þá sú framkvæmd?

Ég gerði athugasemdir við útreikningana sem fylgja með frá fjármálaráðuneytinu og eru byggðir á upplýsingum frá heilbrigðis- og tryggingaráðuneytinu eftir því sem hæstv. ráðherra upplýsti áðan. Ég verð að segja, hæstv. forseti, að ég dreg mjög í efa að þær tölur sem hér eru settar á blað séu eitthvað í námunda við raunveruleikann. Það verður þá rosalega mikil hagræðing út úr þessu máli ef svo verður. Talað er um að kostnaður við hvert mat fari úr 60 þús. kr. niður í 35–40 þús. kr. þrátt fyrir að við setjum fagaðila í þetta sem væntanlega verða þá staðsettir vítt og breitt um landið og þurfa að ferðast milli staða.

Ég spyr hæstv. ráðherra: Hefur verið tekið tillit til þess hvernig samgöngur eru á milli landshluta o.s.frv. þegar verið er að velja hópunum stað? Ég nefni stað eins og Vestfirði. Þar er stundum ekki akfært vikum saman á milli norður- og suðursvæðis. Það batnar nú vonandi eftir þrjú til fjögur ár þegar búið er að gera eina holu í viðbót.

Ég legg þessar spurningar fyrir hæstv. ráðherra og vona að hún reyni að svara því sem ég er að veltast með. Þetta mál er vafalaust til komið vegna þess að við erum í miklum vanda. Við höfum ekki næg úrræði fyrir eldri borgara til þess að vistast á hjúkrunarheimilum, stofnunum eða dvalarheimilum. Hér er verið að segja að það megi gera miklu betur í því að aðstoða fólk við að vera heima og það fái þá notið þeirra gæða að fá að búa áfram á eigin heimili með aukinni þjónustu. Undir það markmið er hægt að taka, hæstv. forseti. Þetta mál verður væntanlega leitt til lykta í nefnd. En ég spyr hæstv. ráðherra enn og aftur hvort ráðuneytið hafi raðað því niður fyrir sig hvar þetta þyrfti nú að vera staðsett ef miðað er við sex til níu starfshópa og miðað við að þeir geti þjónustað landið á sem bestan hátt.