133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[23:00]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka þær umræður sem hafa skapast. Nú er klukkan að ganga tólf og það er gott að henni fer að ljúka, þessari ágætu umræðu.

Aðeins varðandi uppbyggingu öldrunarþjónustu almennt. Það er rétt sem hér kom fram að hún skiptist m.a. í rými sem kallast hjúkrunarrými og svo dvalarrými. Hér áður fyrr voru dvalarrýmin mjög mörg og ég tel að svo hafi háttað til að í dvalarrýmin hafi oft verið settir mjög frískir einstaklingar. Það er svolítið merkilegt að horfa til baka (Gripið fram í: Vinnufærir.) — já, já, vinnufærir og það var farið í skemmtiferðir í rútum með þá sem voru á dvalarheimilunum. Litið var á þetta sem félagslegt úrræði. En þetta var gamli tíminn, nú er allt að breytast. Núna vilja allir vera heima sem lengst, fullfrískt fólk vill ekki fara á stofnanir. Ég tel að við höfum að mörgu leyti gengið of langt í byggingu dvalarheimila á sínum tíma.

Dvalarheimilin eru nú meira og minna að breytast yfir í hjúkrunarrými. Á hverju einasta ári erum við að breyta ákveðnum fjölda dvalarrýma yfir í hjúkrunarrými. Það er vegna þess m.a. að það ágætlega fríska fólk sem fór á sínum tíma á dvalarheimili er margt hvert orðið mjög veikt og þungt í þjónustu, þannig að þetta eru orðnir hjúkrunarsjúklingar. Ég tel að þróunin verði sú að dvalarrýmum fækki stórlega og ég tel reyndar brýnt að svo verði. Ég held að þau hverfi ekki algerlega. Það má vera að eðlilegt sé að hafa einhver dvalarrými til staðar af hreinum félagslegum ástæðum. En almennt er það gamli tíminn að setja fólk inn á dvalarrými sem er tiltölulega frískt.

Á næstunni munum við byggja 374 rými eins og komið hefur fram. Þar af eru 110 á Suðurlandsbraut en verið var að taka skóflustunguna í jarðvegsvinnunni þar um daginn. Það mál hefur tafist, m.a. út af því að fyrirtækið sem ætlaði að fara í það verk gat ekki fjármagnað sig og einnig vegna ýmissa skipulagsmála. Á því heimili verður sérstök deild fyrir geðsjúka aldraða, sérhönnuð. Þar verður einnig hægt að hýsa alzheimersjúklinga. Það eru því ákveðin nýmæli í því heimili. Svo byggjum við 90 rýma heimili á Lýsislóðinni svokölluðu, Seltjarnarnesbær og Reykjavíkurborg eru með í því. Einnig verða byggð 174 ný rými þar fyrir utan og eru þau aðallega á höfuðborgarsvæðinu, þ.e. í Kópavogi, Mosfellsbæ, Garðabæ, Hafnarfirði — á landsbyggðinni er það í Reykjanesbæ, á Selfossi og á Ísafirði. Á næstu fjórum árum verða miklar framkvæmdir á þessum stöðum og þessi undirbúningsvinna er öll í gangi, farin af stað.

Ég tel hins vegar að stóra verkefnið varðandi uppbyggingu, sem er kallað steypuvinna, sé að endurbyggja gömul rými. Við sjáum fyrir endann á því að byggja upp ný rými sem geta sinnt þörfinni (Gripið fram í.) þegar þessi 374 rými verða komin eftir fjögur ár. Þá tel ég að við verðum mjög líklega komin með fullnægjandi rýmafjölda. Ég tel að svo sé. Búið er að byggja upp rúmlega tvö þúsund rými, ég man það ekki nákvæmlega. Það er búið að byggja upp geysilega mörg rými. En það þarf að bæta við. Þetta segi ég þrátt fyrir það að ég segi líka að við séum að hýsa hlutfallslega fleiri aldraða inni á stofnunum hér en gengur og gerist í nágrannalöndunum. Það er svo merkilegt. Það er alveg hugsanlegt, þótt ég viti það ekki, að tilhneigingin verði sú að fólk muni í það ríkum mæli vilja vera heima að þessi rými gætu nýst í eitthvað annað síðar. En stóra uppbyggingarmálið er að endurbyggja þau rými sem nú eru að verða úr sér gengin. Þau voru byggð í góðri trú á sínum tíma. Það eru fjölbýli með salerni frammi á gangi og aðstæður sem þóttu frábærar þá en þykja ekki góðar núna. Þetta var allt byggt upp í góðri trú og af miklum velvilja en í dag teljum við þetta úrelt og gamaldags.

Ég tel mjög eðlilegt að þetta verði næsta stóra uppbyggingarmálið í öldrunarþjónustunni varðandi framkvæmdir og það sem eigi að koma næst í röðinni fram yfir það að byggja yfir fullfrískt fólk. Ég sé ekki tilgang í því að byggja yfir fullfrískt fólk. Hér hefur komið fram að það ætti að hýsa frískt fólk á hjúkrunarheimilunum og það ætti þá að borga fyrir sig með einhverjum hætti. En í dag er það þannig að hjúkrunarheimilin eru fyrir þá sem þurfa á hjúkrun að halda. Þetta eru þannig heimili. Og sambýli fyrir fatlaða eru fyrir þá sem eru fatlaðir og þurfa mikla þjónustu. Það er ekki verið að byggja yfir fjölskylduna alla í einum pakka. Þetta á líka við um sjúkrahúsin, þau þjónusta þann sem er veikur. En aðstandendur eiga að geta komið í heimsóknir og verið í samvistum við sína nánustu. En í grunninn er hugsunin ekki sú að aðstandendur gisti á þessum þjónustustofnunum. Að vísu gista foreldrar barna á Barnaspítalanum. En það er talið rétt og er tiltölulega nýlegt fyrirkomulag. Með nýjum Barnaspítala var hægt að bjóða upp á góðar aðstæður fyrir foreldra að gista hjá börnunum sínum. En við höfum forgangsraðað hingað til í þessu samfélagi, við erum aðallega að þjónusta þá sem eru veikir og fatlaðir.

Hjá hv. þm. Guðjóni Arnari Kristjánssyni kom fram að það væri virðingarvert að ýta undir það að fólk gæti búið sem lengst heima og að það endurspeglaðist í þessu frumvarpi. Það er vissulega rétt. En það er bara klippt út í pappa í lögum um málefni aldraða. Þar stendur að stuðla eigi að því að aldraðir búi sem lengst heima, það er hin almenna stefnumótun sem bæði þing og ráðuneyti hafa fylgt.

Varðandi vistunarmatið hefði ég viljað sjá að gerðar yrðu ákveðnar kröfur áður en verið er að taka fólk í vistunarmat, t.d. kröfur um yfirlýsingu frá heilsugæslunni, heimahjúkruninni og frá félagsþjónustu sveitarfélaga um að þau úrræði væru fullreynd, ekki væri lengur hægt að þjónusta viðkomandi eldri borgara heima. Það þarf að fara yfir það með miklu nákvæmari og heildstæðari hætti en nú gengur og gerist.

Spurt er hvar hóparnir verði staðsettir. Í greinargerð með frumvarpinu kemur fram að nánar verði kveðið á um fjölda nefnda, starfssvæði þeirra, framkvæmd og fyrirkomulag vistunarmatsins í reglugerð. Fyrirhugað er að fagnefndirnar sem sinna vistunarmati verði sex til níu á landinu öllu. Ekki er búið að skipta landinu upp í þessi svæði. Ég slæ því bara hér fram að þau gætu verið kjördæmaskiptingin. Það eru sex svæði. Sums staðar gætu það verið of stór svæði. Hér voru Vestfirðirnir nefndir. Það er hugsanlegt að slíkt svæði yrði t.d. klippt upp í tvær einingar. Ég slæ þessu fram hér í umræðunni. Það er ekki frágengið hvernig starfssvæðin muni nákvæmlega líta út. Faghóparnir þurfa ekki endilega að vera á einhverjum einum stað. Þetta geta verið þrír aðilar hver á sínum staðnum á viðkomandi starfssvæði og þeir geta farið um. Þannig að ég tel ekki að það þurfi að skapast einhver togstreita um hvar þessir hópar verði staðsettir, og svo fara allir að rífast um það að vilja hafa þá í sínu sveitarfélagi og á sínu svæði. Ég tel alveg eins líklegt að þeir verði ekki staðsettir neins staðar, þ.e. svona fýsískt. Að þetta verði sem sagt þrjár manneskjur sem geti búið og starfað hver á sínum staðnum þess vegna.

Virðulegi forseti. Ég er ánægð með þessa umræðu og vænti þess að heilbrigðis- og trygginganefnd fari vel yfir málið. Ég tel ástæðu til þess, af því hér hafa komið fram ítrekaðar ábendingar um kostnaðarmatið, að heilbrigðisnefnd skoði hvort það standist ekki. En alla vega hef ég engar forsendur til þess að draga það í efa á þessum tímapunkti.