133. löggjafarþing — 73. fundur,  19. feb. 2007.

málefni aldraðra.

560. mál
[23:12]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er rétt sem hv. þingmaður taldi sig hafa heyrt. Það er venjulega þannig að ráðuneytin gefa ákveðnar upplýsingar til fjármálaráðuneytisins þegar kostnaðarmat er unnið en síðan er það fjármálaráðuneytið sem fer yfir og klárar matið og kemur með sín viðhorf miðað við þá þekkingu sem þar er innan dyra. Ég gef mér því að heilbrigðisráðuneytið hafi komið með ákveðnar upplýsingar inn í þetta kostnaðarmat. Hvað þær upplýsingar voru nákvæmar þekki ég ekki í grunninn.

Ég er ekki með það sundurgreint hér og nú hvað matið í þessum 40 vistunarmatshópum kostaði. Það eru 40 vistunarmatshópar sem hafa verið að störfum og ég er ekki með það sundurgreint hvað matið kostaði á hverjum stað. En hér kemur fram að meðalkostnaður borgarinnar, sem auðvitað sér í mörgum tilfellum um slíkt mat, var tæplega 60 þús. kr. á hvert mat.

Ég vil draga það fram aftur, eins og kemur fram í kostnaðarmatinu, að gert er ráð fyrir fækkun þessara matsnefnda og þó að fagfólk verði þar innan dyra er fækkunin mikil, úr 40 í 6. Það verða sem sagt færri sem koma að matinu en starfskrafturinn verður dýrari. Í því er talið aukið hagræði að hver nefnd vinni mun fleiri möt. Þetta kostnaðarmat fær því alveg staðist. Ég hef engar forsendur til að draga það efa. Mér finnst samt eðlilegt að menn ræði það í nefndinni.