133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tekjuskattur og staðgreiðsla skatts á fjármagnstekjur.

591. mál
[13:42]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og lögum um staðgreiðslu skatts á fjármagnstekjur.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á skattalögum að því er varðar svonefnda starfstengda eftirlaunasjóði en samhliða þessu frumvarpi er lagt fram frumvarp um slíka eftirlaunasjóði. Er lagt til að starfstengdir eftirlaunasjóðir verði undanþegnir skattskyldu og staðgreiðslu á fjármagnstekjur á sama hátt og lífeyrissjóðir. Þá er lagt til að framlag launagreiðenda til starfstengdra launasjóða teljist ekki til tekna manna þó með þeim takmörkunum sem kveðið er á um í lögum að því er varðar framlag launagreiðenda til öflunar lífeyrisréttinda. Jafnframt er lagt til að einstaklingum verði heimilt að draga frá tekjuskattsstofni iðgjaldagreiðslur til starfstengdra eftirlaunasjóða innan þeirra marka sem nú gilda um frádrag vegna iðgjalda til öflunar viðbótarlífeyrisréttinda eða lífeyrissparnaðar.

Með frumvarpinu eru lagðar til breytingar á lögum um tekjuskatt sem snerta lögaðila með takmarkaða skattskyldu á Íslandi og heimildir þeirra til að draga frá skattskyldum arðstekjum á fjárhæð sem félögin hafa fengið greidda í arð af hlutum og hlutabréfum. Breytingin mun einungis taka til þeirra lögaðila sem eru heimilisfastir í einhverju aðildarríki Evrópska efnahagssvæðisins og leiðir hún til þess að arðgreiðslur þeirra verða skattlagðar með sama hætti og arðgreiðslur lögaðila sem eru með fulla skattskyldu á Íslandi. Réttur Íslands til að halda eftir 15% tekjuskatti af arðgreiðslum til lögaðila, sem eru heimilisfastir í ríkjum sem ekki eru aðilar að EES-samningnum, mun hins vegar standa óbreyttur. Breyting þessi er m.a. lögð til í framhaldi af dómi EFTA-dómstólsins í svokölluðu Fokus-máli og dómi Evrópudómstólsins í svokölluðu Denkavit-máli.

Að lokum eru lagðar til breytingar á skilyrðum fyrir samsköttun sambúðarfólks. Er lagt til að í skattalegu tilliti verði slakað á skilyrðum um skráningu óvígðrar sambúðar í Þjóðskrá þannig að skráning í sambúð hjá Þjóðskrá verði ekki fortakslaust skilyrði fyrir samsköttun sambúðarfólks.

Virðulegi forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og til 2. umr. að aflokinni þessari umræðu.