133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:51]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég verð nærri því að biðjast afsökunar fyrir fram, frú forseti, að segja það en mér sýnist ráðherrann ekki skilja mikið í því frumvarpi sem hann er að flytja.

Þetta er alvörumál, það er ekki nóg að koma hér og mæla fyrir frumvarpi sem maður veit síðan takmarkað hvað inniheldur. Það er alveg rétt, það er kveðið á um í þessum lögum að það skuli stofna sérstakt félag um reksturinn, um dreifingu á orku en ekki um nýjar virkjanir. Hér stendur að Landsvirkjun fari eftir það með eignarhlut ríkisins í rafmagnsveitunum, og þetta telst þá líka til eignarinnar.

Samkvæmt lögum um raforkuver segir að Rafmagnsveitur ríkisins í félagi með aðilum í Skagafirði hafi leyfi til þess að reisa og reka virkjun Héraðsvatna við Villinganes með allt að 40 megavatta afli, þannig að þetta er bundið í lögum og sá réttur hlýtur þá að færast með sama hætti og þessi eignarréttur, (Forseti hringir.) — sem er verðmætur og er framseljanlegur — yfir til Landsvirkjunar ef það má merkja orðanna hljóðan. Þetta er því alvörumál, frú forseti.