133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:52]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það vekur satt best að segja mikla furðu að ríkisstjórnin skuli mæta hér aftur með þetta einokunarfrumvarp sitt á sviði raforkumála sem ríkisstjórnin var hrakin til baka með fyrir jólin eða þann efnisþátt þess sem hér er nú endurfluttur. Þetta frumvarp gengur auðvitað þvert á anda og tilgang innleiðingar orkutilskipunar Evrópusambandsins sem átti að leiða hér til samkeppnismarkaðar á sviði raforku. Það verður að segjast alveg eins og er að þau dótturfyrirtækja- og armslengdarákvæði sem hér er verið að reyna að þvæla inn í málið til þess að gera þetta trúverðugra gagnvart samkeppnisyfirvöldum eru eins og hver annar brandari. Það er auðvitað eins og hver annar brandari að láta sér detta það í hug að þetta verði annað en einn samansúrraður einokunarrisi ef hann kemst á koppinn. Það er kostulegt að hæstv. fjármálaráðherra Sjálfstæðisflokksins skuli flytja þetta hér. Þetta hefur lengi verið draumamál framsóknarmanna eins og kunnugt er, að koma á enn harðsvíraðri einokun í rafmagnsmálum en þó er fyrir. Af einhverjum ástæðum hefur Framsóknarflokkurinn tekið það hugsjónamál upp á sína arma eins og ýmislegt fleira í seinni tíð, einkavæðingu á öllum sviðum sem kostur er.

Maður hlýtur að spyrja hæstv. ríkisstjórn: Er mönnum alvara með það að ætla að fá þetta frumvarp afgreitt hér eða er svona verið bara að skemmta sér undir lok þingsins með því að flytja vitleysu af þessu tagi hingað inn?

Svo vil ég gjarnan spyrja hæstv. ráðherra af því að honum er málið skylt og fer með eignarhaldið í þessum stóru einokunarfyrirtækjum sem ríkisstjórnin hefur búið til með einkavæðingu: Hvernig líst hæstv. fjármálaráðherra á frammistöðu t.d. Símans og Landsvirkjunar sem núna eru að kaupa sig með hátt í 100 millj. kr. bótum frá hreinum samkeppnislagabrotum þegar Síminn keypti fjarskiptahluta Landsvirkjunar? Er ástæða til að treysta þessum fyrirtækjum eitthvað sérstaklega? Hafa þau sýnt það að undanförnu að þau séu traustsins verð þegar kemur að því að virða samkeppnislög í landinu?