133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:54]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Frumvarpið væri ekki flutt nema vegna þess að það er alvara. Hins vegar er það auðvitað Alþingis að ákveða hvað er afgreitt, ríkisstjórnin segir ekki fyrir verkum um það.

Enn kemur fram sá misskilningur að um einhverja einkavæðingu sé að ræða. Það er fráleitt að halda því fram í þessu samhengi. Hins vegar varðandi Landsvirkjun og Símann þá er augljóst að þeim fyrirtækjum hefur orðið á og má segja að þau gjaldi ríkulega fyrir það núna samkvæmt því samkomulagi sem um það varð. En sem betur fer sýnist mér að það hafi raunverulega aldrei reynt beinlínis á þá samninga sem þar voru gerðir þannig að það sé ekki um það að ræða að einhver hafi liðið fyrir brotið sem þar var í samningunum, þannig að það hafi tekist og þá fyrir tilstilli samkeppnisyfirvalda að koma í veg fyrir að þar yrði um meiri og afdrifaríkari mistök að ræða en raunin varð á. Það má þá segja að Samkeppniseftirlitið og samkeppnisyfirvöld séu með þessu að sýna fram á að þau eru mikilvæg og virk tæki til þess að halda uppi samkeppni hér á landi. Ég get út af fyrir sig fagnað því um leið og ég harma þau mistök sem Landsvirkjun og Símanum urðu á í þessum efnum.