133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:56]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Það veldur mér nú vonbrigðum að ríkisstjórninni skuli vera alvara með þetta mál. Það hefði auðvitað verið allt í lagi í sjálfu sér ef þetta hefði verið gamansemi og þá hefði maður bara tekið því og skemmt sér yfir því. Öllu verra er ef ríkisstjórninni er virkilega alvörumál að keyra þetta í gegn.

Varðandi það að þetta sé ekki einkavæðing eða liður í slíkum áformum þá minni ég nú bara á þær yfirlýsingar sem fyrir liggja um að það sé stefna þessarar ríkisstjórnar — sem betur fer verður hún nú vonandi ekki í aðstöðu til þess að hrinda henni í framkvæmd en ásetningurinn er samur. Það stóð til að hefja einkavæðingu Landsvirkjunar árið 2008 og þá einkavæðast auðvitað Rarik og Orkubú Vestfjarða með sem dótturfyrirtæki Landsvirkjunar, ef af yrði, sem fer með eignarhaldið.

Varðandi Landsvirkjun og Símann segir hæstv. ráðherra að þeim hafi orðið á en það hafi ekki komið að sök því að það hafi ekki reynt á samningana. En ásetningurinn er samur. Það er auðvitað undarlegt að hér er það beinlínis undirliggjandi að samkeppnisyfirvöld meta verulega hættu á því að Landsvirkjun komist í markaðsráðandi stöðu á (Forseti hringir.) smásölumarkaði með raforku til viðbótar þeim tröllatökum sem hún hefur á sviði framleiðslu og dreifingar. Þetta er það sem ríkisstjórnin er að gera.