133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[13:58]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Eins og hér hefur komið fram er það ásetningur ríkisstjórnarinnar að einkavæða Landsvirkjun, bæði talsmenn Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks hafa haft uppi orð í þá veru. Við minnumst orða hæstv. fyrrverandi iðnaðarráðherra, Valgerðar Sverrisdóttur, og við minnumst orða hæstv. núverandi forsætisráðherra, Geirs H. Haardes, sem hefur talað um lífeyrissjóðina sem mögulega kaupendur að Landsvirkjun þegar þar að kemur.

Ríkisstjórnin stígur hvert skrefið á fætur öðru í átt til einkavæðingar raforkugeirans. Þetta er einn liður í þeim áformum. Menn segjast vera að fara að dæmi Evrópusambandsins og Evrópuríkja í þeim efnum. Nú er að koma í ljós reynslan af einkavæðingu raforkugeirans í Evrópu. Hún er öll á einn veg: aukin fákeppni, hærra verð til neytenda. Menn hafa áhyggjur af þessari þróun þar og reyna að sporna gegn henni með lagasetningu. Hér eru sett lög sem ganga hins vegar í þveröfuga átt og treysta fákeppnina í sessi.

Ég leyfi mér að vísa í skýrslur sem fram hafa komið frá Evrópusambandinu. Ég vísa í yfirlýsingar helsta talsmanns Evrópusambandsins í raforkumálum, Piebalgs, sem var hér í heimsókn á dögunum og sagði frá óförum Evrópusambandsins á þessu sviði. Ég vísa í nýlega skýrslu frá dönskum fræðimönnum sem er einnig á þennan veg, að einkavæðing raforkugeirans hafi mistekist í Evrópu, hún hafi leitt til hærra verðs og sé óhagstæð fyrir neytendur.

Nú spyr ég hæstv. ráðherra: Á ekki að draga neina lærdóma af þessari reynslu? Hvað þarf að koma til svo að ríkisstjórnin endurskoði áform sín? Eða á að halda áfram með eitt auga í miðju enni, líta hvorki til hægri né vinstri, (Forseti hringir.) heldur hlíta þessari hugmyndafræði sem er að leiða (Forseti hringir.) okkur út í þetta fen og þessar ógöngur?