133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:00]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég hlýt að vekja athygli á að nú hef ég fengið rúmlega hálfan þingflokk í andsvör við mig við út af þessari einu ræðu. Það er út af fyrir sig gaman að því.

En hins vegar virðist orðið einkavæðing vera þessum hv. þingmönnum einkar tamt þegar verið er að ræða um raforkukerfið. Eins og ég sagði áðan hefur ekki verið tekin nein ákvörðun um að einkavæða eitt eða neitt og það hefur ekki verið lagt til og ekki verið á neinu því stigi að hægt væri að tala um að það væri nálægt því að um það væru teknar neinar ákvarðanir, hvað þá að menn geti verið með einhverjar tímasetningar í því sambandi.

En vegna þess sem hv. þm. Ögmundur Jónasson nefndi áðan varðandi tilskipanir Evrópusambandsins snerust þær tilskipanir ekkert um einkavæðingu. Þær snerust hins vegar um markaðsvæðingu raforkukerfisins.

Það sem er að koma í ljós núna er að sú ætlan hefur ekki tekist eins og menn lögðu upp með, ekki vegna þess að markaðsvæðingin í sjálfu sér væri slæm heldur vegna þess að ekki hefur tekist að ná þeirri samkeppni fram sem menn voru að reyna að ná með markaðsvæðingunni. Það sem Evrópusambandið er að gera núna er að reyna að greina hvað það er sem valdi því að ekki næst upp samkeppni á þessum markaði.

Ég held að við ættum að fylgjast mjög grannt með því þegar Evrópusambandið fer í þessa vinnu til að átta okkur á því hvað þarna gerðist og hvað þarf að koma til til að ná fram samkeppni. Og þá eigum við að sjálfsögðu að draga af því lærdóm.

Við hefðum hins vegar mörg hér á landi getað sagt Evrópusambandinu að erfitt væri að koma á samkeppni á raforkumarkaði, á orkumarkaði, og þá auðvitað þeim mun erfiðara sem markaðurinn væri minni.