133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:02]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég á svolítið erfitt með að átta mig á þessu svari. Það var íslenskum stjórnvöldum með öðrum orðum ljóst að markaðsvæðingin mundi ekki ganga upp, sérstaklega í smáum hagkerfum. Við erum smátt hagkerfi. Engu að síður er verið að markaðsvæða raforkukerfið hér.

Það er alveg rétt hjá hæstv. ráðherra að markaðsvæðing og einkavæðing er ekki að öllu leyti sami hlutur en markaðsvæðingin og aðgreining innan raforkugeirans á framleiðsludreifingu og smásölu raforku var til þess að búa í haginn, ekki bara fyrir markaðsvæðingu, heldur einnig einkavæðingu.

Það sem helst hann varast vann, varð þó að koma yfir hann, kvað Hallgrímur Pétursson forðum. Nú erum við að verða vitni að því að helstu talsmenn markaðsvæðingar og einkavæðingar, talsmennirnir sem sögðu báknið burt, fyrir tveimur, þremur áratugum, Friðrik Sophusson og Brynjólfur Bjarnason, hafa nú verið dæmdir fyrir brot á samkeppni.

Fyrir hönd stofnana sinna verða þeir, eða öllu heldur stofnanir þeirra, að greiða í fésektir um 80 millj. kr. vegna þess að þeir (Forseti hringir.) aðilar hlíta ekki markaðslögmálum. Er ekki illa komið fyrir þessum samherjum í endanum á pólitíkinni, hæstv. ráðherra?