133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[14:38]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Virðulegur forseti. Það hafa náttúrlega allir sem hlýða á umræðuna tekið eftir því að hv. þingmaður dregur ályktanir af því sem ég sagði áðan, ég var að tala um frumvarpið og Landsvirkjun, hann dregur ályktanir bæði út í himinblámann og út í hafsauga, miklu meiri og víðtækari ályktanir. Það liggur líka fyrir að í samræmi við EES-reglur erum við að reyna að þroska markaðsreglur á raforkumarkaði og ríkisstjórnin er innilega ósammála hv. þingmanni um þá stefnu í sjálfu sér.

Jafnframt liggur það alveg fyrir að það eru mjög sérstakar aðstæður á Íslandi, í litlu þjóðfélagi úti í hafi, sem valda því að það verða sjálfsagt miklir markaðsbrestir ef gengið er of hratt fram í mótun markaðsreglna. Það er mikið vandaefni og þarf að vanda til þess eftir öllum föngum. Ég get tekið undir að það þarf að fara mjög varlega í því efni.