133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[15:47]
Hlusta

Steingrímur J. Sigfússon (Vg) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég ætlaði einungis að leggja til að umræðunni verði frestað. Ráðherrann sem flytur málið sést ekki hér og aðrir ráðherrar sem hafa verið hér á hlaupum koma ekki í salinn þó að eftir því sé óskað og bornar séu upp fyrir þá spurningar. Þegar svo er er alveg sjálfsagt mál að taka tillit til þessara aðstæðna ráðherranna og fresta umræðunni. (Gripið fram í.) Ég hef engan áhuga á því t.d. að eyða mínum seinni rétti án þess að hafa ráðherrana til skrafs og ráðagerða. Ég hef áhuga á að leggja spurningar fyrir fjármálaráðherra varðandi eigið fé Landsvirkjunar og stöðuna þar og eins hafði ég óskað eftir því að iðnaðar- og viðskiptaráðherra, sem fer með samkeppnismál, upplýsti okkur um það hvernig hann lítur á stöðu sína í þeim efnum.

Mér finnst, virðulegur forseti, að við eigum ekki að sýna þinginu og umræðunni um þessi mál þá óvirðingu að láta hana fara fram langtímum saman án þess að viðkomandi ráðherrar séu við. Hæstv. landbúnaðarráðherra er hér og bíður eftir því að koma sínum málum að. Ég legg til að við frestum þessu máli og tökum til við að ræða mál landbúnaðarráðherra.