133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[15:50]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf):

Hæstv. forseti. Eins og ég sagði í fyrri ræðu minni er verið að flytja málefni þau sem hér um ræðir á milli ráðuneyta og svo virðist vera að hæstv. ráðherrar hafi ekki algjörlega áttað sig á því að það er að gerast. Þannig virðist hæstv. iðnaðarráðherra ekki telja það skyldu sína að taka þátt í umræðunni og fara yfir þau mál sem hér er verið að ræða. Það er nauðsynlegt að hann geri það, hæstv. ráðherra, því að fjármálaráðherra, sem nú er að taka við þessum málaflokki, virðist ekki vera búinn að átta sig á því hvaða verkefni hann hefur tekið að sér. Hann hefur sem sagt samþykkt að taka barnið í fóstur en sinnir því ósköp lítið enn þá a.m.k.

Það er full ástæða til að menn taki þessa umræðu og svari þeim spurningum sem hafa komið fram. Hæstv. viðskiptaráðherra þarf að svara spurningunum um það hvernig sú gerð sem hér er ætluð á að tryggja samkeppni á raforkumarkaði. Hér er verið að fara á fullri ferð aftur á bak frá þeim hugmyndum sem menn hafa kynnt um samkeppni á þessum markaði með samrunanum sem hér er ætlaður með því að setja þessi fyrirtæki undir Landsvirkjun. Hæstv. viðskiptaráðherra þyrfti að fara yfir það líka hvort ekki séu jafnvel líkur á því að þetta standist ekki.

Í fyrri ræðu minni nefndi ég tilskipun frá því á árinu 2003, nr. 54/EC, sem fjallar um það að ekki eigi að blanda saman fyrirtækjum á einkaréttarsviði hvað varðar raforkusölu og dreifingu og fyrirtækjum sem framleiða og taka þátt í samkeppni. Það er líka ástæða til að menn fari yfir þessi mál vegna þess að samkeppnismarkaðurinn sem þarna á að skapa er afskapleg takmarkaður. Ég nefni bara sem dæmi að framleiðslan á raforkunni er 45% af þessum markaði, flutningurinn er 17% af markaðnum, dreifingin er 33% og salan 5%. Þegar menn fá reikningana í hendur núna, almennir notendur, þá skiptist helmingurinn af fjárhæðinni á milli dreififyrirtækjanna og flutningsaðilans á raforkunni. Það er þess vegna á afskaplega litlu bili sem samkeppni getur farið fram á þessum markaði að nokkru marki. En hvar er það? Jú, það er á framleiðslu raforkunnar, það er þar sem samkeppnin virðist helst geta verið.

Hvað gerir svo Landsvirkjun þegar kemur að því að setja þennan markað af stað? Hún hafði það sem sitt fyrsta verk að neyða fyrirtækin sem kaupa af henni raforku til þess að gera við sig tólf ára samninga. Hvað geta nú aðilar sem búnir eru að gera tólf ára samninga um kaup á raforku gert í samkeppnismálum hvað varðar orkuverðið? Varla mikið annað en að styðjast við þá raforkusamninga sem þarna voru gerðir. Þetta var nú það sem Landsvirkjun byrjaði á að gera og það er hún sem selur obbann af raforkunni til fyrirtækja á þessu sviði. Þetta finnst mér að þurfi að hafa í huga þegar menn ræða um þann samkeppnismarkað sem þarna á að verða til. En fyrst og fremst þurfa menn, sem vilja gera þá breytingu á raforkukerfinu sem hér er verið að leggja til, að útskýra vandlega hvernig það samrýmist þessum samkeppnissjónarmiðum sem menn segjast hafa uppi og hvernig þeir geta yfirleitt varið þá stefnu sem kemur hér fram. Það þarf líka að segja mönnum frá því hvers vegna þessi leið er valin til þess að styrkja eigið fé Landsvirkjunar og hvaða aðrar leiðir hafi verið skoðaðar til þess og hvort menn hafi ekki pólitískan styrk í fótunum til þess að birtast með þær leiðir aðrar sem mögulegar væru til að styrkja eigið fé Landsvirkjunar. Það liggur náttúrlega í augum uppi að þessi gerð er fyrst og fremst kölluð fram vegna þess atriðis.

Ég vil endurtaka það sem ég sagði í fyrri ræðu minni að svo virðist vera sem forstjóri Landsvirkjunar stjórni hér öllum, að þrýstingur frá Landsvirkjun og forstjóra Landsvirkjunar sé það sem ráði gerðum manna. Hann er svo viss um áhrifamátt sinn að hann sendir tölvupósta til annarra aðila í þessum geira. Hann sendi Rarik tölvupóst þar sem hann sagði að það sem nú væri á ferðinni væri einungis fyrsta skrefið og að mjög fljótlega yrði stofnuð rekstrareining um framleiðsluna. Ég hugsa að sá ágæti forstjóri viti betur en ráðherrarnir sem eru að flytja hér málið fyrir hann. Þeir frétta það þá núna að það standi til að þeir geri eitthvað meira en þetta.

Svona er nú í pottinn búið. Ég verð að segja það alveg eins og er að mér finnst að hæstv. ráðherrar, bæði hæstv. iðnaðar- og viðskiptaráðherra og hæstv. fjármálaráðherra, skuldi okkur hér í sölum Alþingis og neytendum, fólkinu í landinu, kjósendunum, skýringar á því hvers vegna verið er að fara þessa leið. Það er ósvinna að fara þessa leið, ef menn eru einungis að leysa málefni Landsvirkjunar og það er eina röksemdin sem ég hef getað séð að geti verið skýring á því að menn birtast með þetta frumvarp.

Ég tek lítið mark á því þó að menn haldi því fram að hagræðing þessara tveggja fyrirtækja, þ.e. Orkubús Vestfjarða og Rariks, hangi þarna á spýtunni. Ef menn vilja fara í að hagræða milli þeirra fyrirtækja væri hægt að sameina þau tvö og ná þeirri hagræðingu fram með þeim hætti eða með samvinnu þeirra, það þurfti ekki að gera þau að eign Landsvirkjunar. Þetta eru nú þær tvær röksemdir sem við höfum fengið að heyra hér og mér finnst þær ekki standast skoðun. Ég tel það Alþingi til vansa ef niðurstaðan verður sú að nota gömlu aðferðina, þ.e. að láta stjórnarliða samþykkja vond mál ef ríkisstjórnin treystir sér ekki til þess að taka á þeim með öðrum hætti en þeim sem hér er boðið upp á.

Ég ætla að ljúka máli mínu núna með því að segja: Af því að nú dregur að kosningum ætti það að vera hvatning til hæstvirtra ráðherra að þeir geri grein fyrir stefnu sinni í þessum málum og útskýri hana fyrir þjóðinni. Þjóðin getur þá áttað sig á því, og þeir sem sitja hér í þingsal, hver markmiðin með því sem hér er verið að leggja til eru og hvers vegna ekki er hægt að fara aðrar leiðir sem virðast ekki hafa verið skoðaðar — maður verður a.m.k. að álykta sem svo ef ekki verður farið yfir það sem ríkisstjórnin hefur vélað um áður en hún tók þá skrýtnu ákvörðun að gera Landsvirkjun að eiganda þessara fyrirtækja.