133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[15:59]
Hlusta

iðnaðarráðherra (Jón Sigurðsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Reyndar var vikið að mér spurningu sem viðskiptaráðherra og mér er ljúft að reyna að svara henni í örfáum orðum eftir því sem tími leyfir mér í andsvari.

Frumvarpið mun, eftir því sem ég best veit, byggt alveg sérstaklega á ábendingum og athugasemdum Samkeppniseftirlitsins og það kemur skýrt fram á 3. síðu í hinu prentaða eintaki frumvarpsins. Neðarlega á þeirri síðu, í athugasemdum við lagafrumvarpið, er sérstaklega tekið fram, með leyfi hæstv. forseta:

„Með hliðsjón af þessu og samkeppnisaðstæðum að öðru leyti er því lagt til í frumvarpinu að sett verði skilyrði sem miða að því að tryggja aðskilnað í framleiðslu og sölu raforku. Þessi skilyrði koma fram í 4.–7. mgr. 1. og 3. gr. frumvarpsins.“

Síðan koma á þessari síðu og næstu síðu, 4. síðu, fjórir liðir þar sem rakið er alveg sérstaklega hvernig með þessari skipan mála, með sérstakt sölufélag og stjórnunarlegan og rekstrarlegan aðskilnað, sem rakið er nánar í greinargerðinni, er beinlínis farið eftir ábendingum og skilmálum Samkeppniseftirlitsins.