133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:05]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg):

Frú forseti. Ég vildi koma örfáum atriðum á framfæri áður en umræðunni lýkur. Eins og fram hefur komið er verið að leggja eignarhlut ríkisins í Orkubúi Vestfjarða til Landsvirkjunar og hún verður einhvers konar eigandi að Orkubúi Vestfjarða og sömuleiðis verður eignarhlutur ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins lagður til Landsvirkjunar sem viðbótareigandaframlag ríkissjóðs í Landsvirkjun, eins og stendur í frumvarpinu, og Landsvirkjun fer eftir það með eignarhlut ríkisins í Rafmagnsveitum ríkisins.

Verið er að keyra þetta allt saman í eitt félag, eitt fyrirtæki. Reyndar gengur það þvert á þá yfirlýsingu sem var gefin sem tilgangurinn með innleiðingu á raforkutilskipuninni og breytingu á lögum með því að innleiða ætti samkeppni. Samkeppnin ætti að tryggja þjónustu og gott verð. Nú upplifum við það að verið er að nota raforkulögin til að keyra þetta saman í eitt fyrirtæki og útiloka alla samkeppni, enda vitum við að þegar búið er að útiloka alla samkeppnisaðila, Rarik og Orkubú Vestfjarða, þó litlir væru, er Landsvirkjun náttúrlega seljanlegri á einkamarkaði, sem við þekkjum sem vitum hvernig einkamarkaðurinn virkar og hann hefur sína kosti. En við erum ekki á því að Landsvirkjun eigi að fara í gin einkavæðingarinnar með Rarik og Orkubú Vestfjarða með sér.

Við höfum líka farið yfir það hvernig Vestfirðingar í tengslum við Orkubú Vestfjarða hafi nánast verið sviknir af öllum þeim atriðum sem þeim var lofað þegar Orkubúið var tekið af þeim. Ríkið tók Orkubú Vestfjarða af þeim upp í skuldir á sínum tíma. Við rifjuðum það upp með fulltrúum Vestfirðinga á fundi með þingmönnum Norðvesturkjördæmis nýverið, að eitt af loforðunum var að ef Orkubú Vestfjarða og Rarik sameinuðust ættu höfuðstöðvarnar og allt að flytjast á Ísafjörð. Það var eitt af því sem þeim var lofað. Reyndar var Akureyringum lofað því sama, að ef Rarik og Orkubú Vestfjarða yrðu sameinuð ætti að flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar. Um tíma var Sunnlendingum lofað að höfuðstöðvar Rariks ættu að fara á Selfoss.

Á nokkurra missira bili er búið að lofa þessu út og suður og allt síðan verið svikið náttúrlega, því nú er verið að setja þetta allt í Landsvirkjun annars vegar til að skapa hér fullkomna einokun þannig að allir neytendur verði að borga stóriðjukostnað Landsvirkjunar, allir almennir neytendur því 60–70% eða meira af raforku Landsvirkjunar er bundið í stóriðjuverðum á spottprís. Ríkisreknu álverksmiðjurnar með ríkisstuðningnum með þessu lága raforkuverði, en almennir neytendur eru að borga kannski 7–10 sinnum hærra raforkuverð en stóriðjan. Garðyrkjan, fiskiðnaðurinn, allar þessar miklu iðngreinar, atvinnugreinar sem gætu staðist samkeppni á heimsvísu miklu betur ef þær fengju raforku á sama verði og stóriðjan. Nei. Stefna forustumanna Framsóknarflokksins er að stóriðjan skuli njóta sérstakra niðurgreiðslna á rafmagni. Nú á að færa niðurgreiðslurnar til Landsvirkjunar þannig að enginn sleppi þar.

Þetta er dapurt og algjörlega á móti þeirri stefnu sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð er með í orkumálum. Hún vill jöfnuð. Vinstri hreyfingin – grænt framboð vill að aðrir atvinnuvegir njóti alveg hliðstæðra kjara. Það sé jafnræði hvað það varðar og sömuleiðis eigi almenningur að njóta þess að hér sé næg raforka á lágu verði en ekki vera að íþyngja þeim með því að greiða niður raforkuverð til stóriðjunnar sem virðist eiga að halda áfram með. Það er því dapurt sem hér er verið að gera. Verið er að skapa einokun, búa til fákeppni á raforkumarkaðnum með því að steypa öllum fyrirtækjunum saman í eitt.

Ég vil spyrja um eitt atriði. Málið er að færast frá iðnaðarráðherra til fjármálaráðherra, sem virðist reyndar ekki vera búinn að setja sig allt of mikið í málin reyndar, eins og fram hefur komið, en þegar Rarik var breytt í hlutafélag voru send erindi frá bæði Norðurorku og Skagafjarðarveitum til iðnaðarráðherra með ósk um viðræður um að Norðurorka fengi eignir og starfsemi Rariks á sínu þjónustusvæði. Einnig kom erindi frá Skagafjarðarveitum um viðræður — blessunarlega voru hitaveitur Skagafjarðar ekki seldar ríkinu eins og Rafveita Sauðárkróks var seld til Rariks — um að þær fengju ákveðna hluti af eignum og verkefnum Rafmagnsveitna ríkisins á starfssvæði sínu þannig að styrkja og efla mætti veiturnar á heimaslóð. Ég veit ekki til að þeim erindum hafi verið svarað nema á þann hátt að hunsa þau og hleypa þessum fyrirtækjum öllum saman í eitt. Það hefði verið stefna í þeirri viðleitni að búa til samkeppni í orkugeiranum með því að leyfa og stuðla að staðbundnum orkudreifingarfyrirtækjum. Skagafjarðarveitum hefur ekki verið svarað, það ég veit hvað þetta varðar. Norðurorku hefur ekki verið svarað, það ég veit hvað þetta varðar, heldur er þessu öllu saman steypt í eitt. Ég vil spyrja hæstv. fjármálaráðherra hvort hann hyggist svara þessum aðilum um að skapa möguleika á staðbundnum, héraðsbundnum orkufyrirtækjum, sem mundu reynast mjög vel.

Síðan vil ég ítreka spurningu mína varðandi aðild ríkisins að fyrirtækjum sem hafa virkjunarrétt við Villinganes. Samkvæmt lögunum og þeim samningum sem þar eru er það Rarik sem á móti Kaupfélagi Skagfirðinga og litlum hlut Akrahrepps á fyrirtæki sem á virkjunarréttinn við Villinganes. Hart var deilt um virkjunarréttinn, um rannsóknarleyfin til virkjana á jökulsánum í Skagafirði milli Landsvirkjunar og þessara fyrirtækja. Nú er Rarik orðin hluti af Landsvirkjun og lýtur eignarlegri forsjá Landsvirkjunar. Í mínum huga hlýtur það því að vera orðið svo að þessi þáttur sé líka kominn undir Landsvirkjun. Ég vil spyrja hæstv. ráðherra: Er það svo eða vill kannski fjármálaráðherra, sem fer núna með þessi mál, beita sér fyrir því að ríkið dragi sig út úr þeim virkjunaráformun í jökulsánum í Skagafirði, sem hefur verið eitt harðasta deilumálið í Skagafirði á undanförnum árum? Vinstri hreyfingin – grænt framboð hefur einmitt staðið öflug gegn öllum virkjunaráformum þar og komið í veg fyrir að í þau hafi verið ráðist, þó nú séu aftur áform um það hjá núverandi meiri hluta þar, Framsóknarflokknum og Samfylkingunni, að setja það aftur á skipulagið, sem við í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði erum reyndar mjög andvíg sem og fleiri.

Þess vegna skiptir máli hvert virkjunarrétturinn sem Rarik hefur í Skagafirði fer. Fari hann í Landsvirkjun er Landsvirkjun þá ein komin með bæði umsóknirnar um rannsóknarleyfi. Fyrir liggur beiðni um rannsóknarleyfi fyrir Skatastaðavirkjun af hálfu Landsvirkjunar og líka af hálfu þessa félags sem Rarik og Kaupfélag Skagfirðinga eiga saman. Þessar tvær beiðnir liggja fyrir. Fyrir liggur virkjunarheimild til þessa fyrirtækis fyrir Villinganesvirkjun. Nú er ríkishlutinn kominn í eitt, kominn allur undir Landsvirkjun. Hvernig verður þá með þessa hluti farið? Ég vil fá svar við því, frú forseti.