133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:49]
Hlusta

Jóhann Ársælsson (Sf) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég tók eftir því að hv. þingmaður ræddi nokkuð um Framsóknarflokkinn í ræðu sinni og hann lýsti því að fyrirætlanir Framsóknarflokksins með þjóðlendumálinu og framgangi hvað varðar þjóðlendumálið hefðu miðað að því að einkavæða ætti þjóðlendurnar og koma þeim í hendurnar á einkaaðilum í framtíðinni. Ég spyr hv. þingmann hvort honum hafi verið kunnugt um þessar fyrirætlanir og hvort hann hafi tekið þátt í þeirri stefnumótun sem var á bak við þennan framgang ríkisstjórnarinnar í þessum málum og hvernig hann hafi brugðist við því og hvers vegna hann hafi þá ekki upplýst um þessar fyrirætlanir fyrr en þetta, því ef þessar fyrirætlanir hafa orðið til með stefnumörkun í Framsóknarflokknum þá er afar mikilvægt að það komist inn í umræðuna.

Það kom mér satt að segja afar mikið á óvart þegar þær fyrirætlanir birtust að menn ætluðu sér að fara að gera þjóðlendur að einkalandi eða breyta þeim úr þjóðlendum í séreignarlönd. Ég tel reyndar að það mál sé eitt af stærri málum sem núna liggja fyrir hér á hv. Alþingi og mjög brýnt að menn stöðvi það mál og það komist ekki til framkvæmda því það er náttúrlega með eindæmum ef menn hafa ætlað að taka land sem hefur verið einskismannsland fram á þennan dag sisvona og ætla svo bara að selja það á markaði til orkufyrirtækjanna eða annarra sem hafa vilja.