133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:51]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég hef ekki skýrt frá neinu öðru en því sem þegar hefur komið fram opinberlega til þessa, bæði í mínu máli og annarra. Ég vil benda hv. þingmanni á að það mál sem hann nefndi réttilega að væri sérstakt að því leyti að þar væri verið að breyta þjóðlendu í eign hjá Landsvirkjun var hér á ferðinni á síðasta þingi. Það var búið að leggja það fram, mæla fyrir því og vísa því til allsherjarnefndar og allsherjarnefnd var búin að skila því af sér ágreiningslaust. Það var ekki fyrr en við 2. umr. málsins sem ég tók til máls um það og vakti athygli á því hvað hér væri á ferðinni. Það varð til þess að málið hlaut ekki afgreiðslu á því þingi. Það varð til þess að hv. þm. Jóhann Ársælsson og fleiri áttuðu sig á því hvað væri hér á ferðinni.

Ég vil því bara einfaldlega vekja athygli hans og fleiri á því að ég hef flutt þessa ræðu oft áður við önnur tækifæri og vitnaði til heimilda sem eru opinberar og menn hafa vitað um.