133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

stofnun hlutafélags um Orkubú Vestfjarða og Rafmagnsveitur ríkisins.

570. mál
[16:55]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég er alveg sammála hv. þingmönnum um að eitt af þeim málum sem verður kosið um í vor er þetta um auðlindir lands og sjávar, um að koma í stjórnarskrána ákvæði um það, að koma í veg fyrir orkuauðlindin verði einkavædd eins og stefnt er að og að tryggja að þjóðin njóti þess arðs sem er af auðlindunum, sem er gríðarlega mikill í dag, bara af fiskveiðiauðlindinni og mun verða mjög mikill af orkuauðlindinni ef og þegar virkjunaráform sem í gangi eru og fyrirsjáanleg á næstu árum ná fram að ganga. Þá verður það mikið magn af orku sem verður selt að það eru milljarðatugir sem verður tekist á um hvort renni til þjóðarinnar eða renni til einkaaðila á hverju ári.

Það er algerlega nauðsynlegt að mönnum sé ljóst í stórum dráttum um hvað er verið að takast á í stjórnmálunum. Í þessu máli sýnist mér að stjórnarandstaðan sé sameinuð um meginatriði og ég er alveg sannfærður um það, virðulegur forseti, að ef stjórnarandstaðan ber gæfu til að standa saman þá vinnur hún kosningarnar í vor. Því aðeins tapar hún kosningunum að menn séu að slá út undan sér og að einhver flokkurinn opni fyrir það að vinna með öðrum hvorum stjórnarflokknum. Ef foringjar stjórnarandstöðuflokkanna þriggja átta sig á þessu og ná saman um þessi meginatriði og standa saman um þau þá vinna þeir kosningarnar. Þá tekst mönnum að ná því fram sem að er stefnt. Og það er þetta sem ég held að sé kjarni málsins sem menn eigi að draga fram við sem flest tækifæri hér á Alþingi.