133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:02]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan heyra frá hæstv. ráðherra hvað þetta frumvarp felur raunverulega í sér. Hvað þýðir þessi heimild sem nú er komin skýr lagaheimild fyrir? Getur ráðherra úthlutað að geðþótta og þá á ég við magn? Er verið að opna á það að ráðherra geti í framtíðinni, ef mál skipuðust svo, gert samning um hvaða magn sem er eða eru einhverjir skilmálar í því sem þarna var ákveðið? Ráðherrann upplýsir að þetta sé fyrsta samkomulag um gagnkvæman tollkvóta á kjöti, kjötvörum, ostum og einhverju fleiru og þá er spurningin: Ef sitjandi ríkisstjórn, sem hugsanlega væri önnur en sú sem nú situr, ákvæði að nýta sér tollkvóta í mun ríkari mæli en sú ríkisstjórn sem nú situr þyrfti þá nýja samninga eða er kominn samningur núna þar sem menn þurfa bara að ákveða magnið hverju sinni? Þetta er mjög mikilvægt, hverjar eru heimildirnar og hvað þýðir samningurinn í raunveruleikanum? Annars vegar hvað ætlar ríkisstjórnin að gera og hins vegar hvaða heimildir mundi hún hafa umfram það?