133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:28]
Hlusta

Drífa Hjartardóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alltaf jafnskemmtilegt þegar verið er að ræða landbúnaðarmál í sölum Alþingis og sérstaklega þegar verið er að ræða þróunina síðustu árin. Það er með ólíkindum hve margir halda að það hafi hreinlega ekkert gerst í íslenskum landbúnaði undanfarin ár. Það er öðru nær. Hv. þingmaður sagði að ekkert svigrúm væri fyrir íslenska bændur, en það er þannig að kúabændum hefur fækkað niður í um 860 frá því að vera um 1.550 fyrir 10–15 árum. Búin hafa verið að stækka. Meðalbú er núna um 140 þúsund lítrar mjólkur en var innan við 100 þúsund lítrar fyrir 10–15 árum. Sauðfjárbændum hefur líka fækkað og sauðfjárbúin hafa verið að stækka. Það hefur verið gríðarlega ör þróun. Í nokkur ár var ástandið þannig að það fækkaði um einn kúabónda á viku.

Búin hafa verið að stækka. Þau hafa verið að þróast. Það er gríðarlega mikil framsækni í íslenskum landbúnaði. Menn eru að byggja ný og stór fjós og auka þar við tæknina. Menn eru svo sannarlega að búa sig undir samkeppni á öllum vígstöðvum og sem betur fer hafa jarðir hækkað í verði. Þær ganga nú kaupum og sölum eins og aðrar fasteignir og er það oft talið hátt verð þegar kostajörð er seld á 100 millj. kr. En þegar einbýlishús í Reykjavík fer kannski á 150 millj. kr. segir enginn neitt eða þegar hús sem verið var að selja um daginn fer á 600 millj. kr., það þykir ekki mikið. En ef jörð fer á 100 millj. verða allir vitlausir.