133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:30]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þegar við ræðum þessi mál með þessum hætti er alveg ljóst að skoðanir eða framsetning fer nokkuð í kross. Auðvitað er það gott fyrir bónda sem ætlar að bregða búi ef jörðin hækkar mikið í verði, ekki mæli ég fyrir því að jörð eða hús þurfi að fara á einhverju undirverði. Því má ekki gleyma að fyrir aðgerðir ríkisstjórnarinnar hefur t.d. íbúðaverð á höfuðborgarsvæðinu hækkað um 60% á sennilega aðeins þremur árum en það er alveg ljóst að það gerist ekki með íbúðir og hús úti á landi eða jarðir. Ef jarðir eru sprengdar upp í verði af því að hestaeigendur ætla að kaupa þær eða nýríkir einstaklingar er það ekki eitthvað sem sauðfjárbóndi, sem fær 20–40% af verðinu til sín, ræður við.

Ég er ekki að gera lítið úr því að ýmislegt hafi áunnist en það var ekki ég sem bar það fram á fundi Sambands íslenskra sveitarfélaga að menn hafi áhyggjur af því sem er að gerast í sveitarfélögum sínum. Forustumenn sem voru kjörnir í þessum sveitum og sveitarfélögum til að gæta hagsmuna þeirra lýstu þessu yfir og það komu stórar fyrirsagnir í fjölmiðlum um þetta.

Kúabændum hefur fækkað og búin stækkað, staða sauðfjárbænda hefur verið önnur síðustu ár en kúabænda og það er mjög mikilvægt að reyna eins og unnt er að bæta hag þeirra. Þess vegna eiga þeir að vera framsýnir líka þegar koma á með nýja samninga og nýja fjármuni.