133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:37]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þm. Rannveig Guðmundsdóttir fór yfir stórt og mikið svið í ræðu sinni og fjallaði vítt og breitt um landbúnaðarmál, þar á meðal um nýgerðan sauðfjársamning. Hann munum við auðvitað ræða á næstu dögum. Ég vil benda hv. þingmanni á að skoða þann samning vel áður en til þeirrar umræðu kemur því að í honum felast mjög mikil þróunartækifæri fyrir sauðfjárræktina kannski í þeim anda sem hv. þingmaður ræddi um. Svipað hefur verið að gerast í mjólkurmálunum, að bændur hafa frelsi til að stækka og efla bú sín. Það er mikið lagt í gæðastýringu og betri búskaparhætti. Nú liggur það kannski fyrir að Ísland er talið eitt af 7–10 bestu sauðfjárræktarlöndum heimsins. Við eigum því mikla möguleika á þessu sviði.

Ég vil aftur á móti fræða hv. þingmann um það að t.d. kjötmarkaðurinn og landbúnaðurinn að stórum hluta heyrir undir samkeppnislög. Það er rangt að hann heyri ekki undir þau. Það eru nokkrar dagvörur í mjólkuriðnaðinum sem heyra ekki undir samkeppnislög og opinber verðlagning er á þar sem Alþýðusambandið og atvinnulífið koma að verðlagningu og hefur þótt mjög mikilvægt fyrir neytendur.

Hvað varðar það mál sem hér um ræðir og ég var að kynna og fer nú til landbúnaðarnefndar liggur það auðvitað fyrir að þarna er fyrst og fremst verið að opna fyrir heimildir sem gerðar eru samkvæmt fríverslunarsamningi eins og þeim sem gerður var á dögunum við Evrópusambandið og öðrum sams konar fríverslunarsamningum sem hægt er að gera, fyrir utan WTO sem er annars eðlis. Hér er verið að opna þennan möguleika. Það stendur til, eins og hér hefur komið fram, að lækka matvælaverð 1. mars. Þar er auðvitað stigið það stóra skref að virðisaukaskatturinn, sem tekinn var upp fyrir mörgum árum, er lækkaður um helming, vörugjöld og tollar eru lækkaðir í þessu skyni og af því mun auðvitað verða heilmikill árangur hvað varðar lækkun á matvælaverði.