133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[17:43]
Hlusta

Rannveig Guðmundsdóttir (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Niðurstaðan er í fyrsta lagi sú að sauðfjárbóndi þarf að verða samkeppnisbær — hvort heldur um er að ræða framleiðslu á vöru eða kaup á jörðum hvort sem það er næsta jörð eða ef hann vill flytja sig til — við aðra sem hafa viðurværi sitt af einhverju öðru.

Í öðru lagi er niðurstaðan sú að hæstv. landbúnaðarráðherra hefur ekki verið fær um að skýra það út á hinu háa Alþingi hvað felst í því frumvarpi sem hann mælti hér fyrir. Ég hlýt að reikna með því að landbúnaðarnefnd fari vel ofan í málið og að það liggi ljóst fyrir hvaða heimildir eru að opnast hér. Ég hvet jafnframt hæstv. landbúnaðarráðherra til að afla sér góðra upplýsinga um hvað felst í samningnum við Evrópusambandið þannig að sú umræða geti jafnframt komið í umræðuna um sauðfjársamninginn þegar við ræðum hann síðar.