133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:02]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hvað varðar þessa umræðu og umræðu um matvælaverð þá þekkjum við þá sögu og það hefur verið hér lengi til umræðu, en það liggur náttúrlega fyrir að fyrrverandi forsætisráðherra skipaði þessa nefnd eftir áramót í vetur. Sú nefnd náði ekki samstöðu og þetta eru auðvitað tillögur þeirrar ríkisstjórnar sem nú starfar sem taka gildi 1. mars.

Ég stenst ekki mátið að minna Samfylkinguna á það að hún fór í frumeindir í sumar. Hún klofnaði, sem betur fer. Formaður Samfylkingarinnar boðaði það með hluta af þingflokknum að fella bæri niður alla tolla af innflutningi á landbúnaðarvörum. Um þetta urðu hastarleg átök hjá Samfylkingunni eins og menn muna og það kom auðvitað fram að gömlu alþýðubandalagsmennirnir risu upp og mótmæltu þessu smátt og smátt. Samfylkingin ætlaði að vísu að taka upp beingreiðslur og ríkisstyrki sem ekki eru heimildir til.

Ég minni á þetta til gamans í þessari umræðu. Það er aldrei gaman þegar flokkar klofna og lenda í þeim vandræðum en þeir hafa lært eitthvað af þessu, samfylkingarmenn. (Gripið fram í.) Ég vil svo segja við hv. þingmann: „Að ljúga að öðrum er ljótur vani, en að ljúga að sjálfum sér er hvers manns bani.“ Það er rangt að halda því fram að Íslendingar eigi erfiða daga. Ef við förum til þess tímabils, 10–12 ár aftur í tímann, þá voru 12–14 þúsund Íslendingar án atvinnu. Það var kreppa. Það var neyð á Íslandi. Nú hafa allir Íslendingar atvinnu og lífskjör hafa batnað almennt hjá öllum. (Gripið fram í.) Menn geta svo deilt um það og haldið því fram að hér sé fátækt en við erum land sem vekur athygli. Við erum auðvitað í miðjum klíðum að taka á mörgum málum og getum miklu meira vegna þess að tekjur hafa vaxið (Forseti hringir.) hjá ríkinu og samfélaginu á svo mörgum sviðum. Þetta eigum við að viðurkenna í íslenskri pólitík.