133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:23]
Hlusta

landbúnaðarráðherra (Guðni Ágústsson) (F) (andsvar):

Hæstv. forseti. Hv. þingmaður gerir oft mikið mál úr öðru en því sem málið í rauninni snýst um. Hann veit vel af því að hann er vel læs að þetta mál snýst eingöngu um tolla og tollkvóta, hv. þingmaður veit það. Samkomulagið er líka, eins og kom fram í máli hv. þingmanns, eingöngu um vörur sem framleiddar eru í Evrópusambandsríkjunum.

Það má líka nefna að vegna sjúkdóma og baráttu seinni ára er Evrópusambandið komið með miklu öflugri rekjanleika en við höfum náð á Íslandi, frá haga til maga, mjög öflugt kerfi sem þeir hafa sett í gang. Samkomulagið felur ekki í sér breytingu á þeim kröfum um heilbrigði og hollustu sem gerðar eru hér á landi. Við styðjumst alfarið við að innflutningurinn stýrist af ákvæðum laga um dýrasjúkdóma og varnir gegn þeim og samkvæmt reglugerð frá árinu 2004 um varnir gegn því að dýrasjúkdómar og sýktar afurðir berist til landsins og alþjóðlegum skuldbindingum vegna Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Það er ekki verið að gera neina breytingu þar á, hún snýst eingöngu um tolla og tollkvóta.

Ég er alveg hjartanlega sammála hv. þingmanni um það sem hann ræðir mest um að innflutningur á lifandi dýrum kemur aldrei til greina, hann er of áhættusamur. Hér er gætt mikillar varkárni við að sækja kjötvörur inn í lönd þar sem komið hafa upp sjúkdómar og það verður að gera. Við reynum að velja lönd þar sem mikið heilbrigði er til staðar, það er gert eftir ströngustu löggjöf hér og yfirdýralæknir og Landbúnaðarstofnun fylgja því mjög fast eftir. Það er auðvitað stóra málið sem við þurfum að vaka yfir, en þetta mál snýst eingöngu, hv. þingmaður, um (Forseti hringir.) tolla og tollkvóta.