133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tollkvótar við innflutning landbúnaðarafurða.

621. mál
[18:29]
Hlusta

Jón Bjarnason (Vg) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek undir þau orð hæstv. ráðherra að þær vörur sem hér eru á boðstólum eiga að vera upprunamerktar, hvort heldur er í búðum eða á hótelum, ég tala nú ekki um hvað landbúnaðarvörur varðar. Við vitum vel að á markaðnum eru vörur sem alls ekki uppfylla hollustuskilyrði. Við viljum að það sé tryggt að þær vörur séu ekki á markaði hér. Þess vegna mun ég ganga enn fastar eftir því í landbúnaðarnefnd, þar sem ég sit og fjallað verður um málið, hvernig sé með upprunamerkingu á þeim vörum sem fluttar eru inn samkvæmt þeim heimildum sem við erum m.a. að ræða um hér, að það sé fullkomlega tryggt að hægt sé að rekja uppruna þessara landbúnaðarvara þannig að ekki þurfi að koma upp neinar kviksögur um að nautakjötið sem hér sé á markaðnum sé komið frá Argentínu, hafi bara lent í gámi í höfn í Evrópu eða að kjúklingarnir sem hér séu á markaði séu komnir frá Asíu, hafi bara verið umskipað í Hollandi. Við viljum losna við að þurfa að hafa nokkurt tilefni til að hlusta á slíkar kviksögur. Þess vegna verður það að vera alveg skýrt að þær heimildir sem veittar eru til innflutnings á landbúnaðarvörum séu bundnar því að ströngustu hollustukröfur séu gerðar um framleiðslu og verkun þeirra og rekjanleika þeirra, að það sé alveg ótvírætt að þess sé gætt.

Mér finnst svolítið skorta á það enn, a.m.k. er viss tortryggni í gangi, maður heyrir það, um öryggi í hollustu og heilbrigði þeirra landbúnaðarvara sem fluttar (Forseti hringir.) eru inn og taka þarf af öll tvímæli í þeim efnum.