133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

neytendavernd.

616. mál
[18:34]
Hlusta

viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) (F):

Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir frumvarpi til laga um samvinnu stjórnvalda á Evrópska efnahagssvæðinu um neytendavernd. Frumvarpið er á þskj. 916, mál 616.

Með frumvarpi þessu er lagt til að reglugerð Evrópuþingsins og ráðsins (EB), nr. 2006/2004, frá 27. október 2004, um samvinnu milli innlendra yfirvalda sem bera ábyrgð á framkvæmd laga um neytendavernd öðlist lagagildi hér á landi. Frumvarpið er lagt fram með hliðsjón af ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar, nr. 92/2006, frá 7. júlí 2006, þar sem ákveðið var að breyta XIX. viðauka við EES-samninginn sem fjallar um neytendavernd og fella reglugerðina í samninginn. Ákvörðun sameiginlegu EES-nefndarinnar var tekin með stjórnskipulegum fyrirvara af Íslands hálfu.

Markmið reglugerðar um samvinnu um neytendavernd er að tryggja eftirfylgni við lagaákvæði á sviði neytendaverndar, sérstaklega í þeim tilvikum þar sem um er að ræða viðskipti yfir landamæri. Í reglugerðinni er kveðið á um að sett skuli upp net opinberra eftirlitsstofnana sem ná skal yfir allt Evrópska efnahagssvæðið og öðlast stofnanirnar réttindi og skyldur varðandi gagnkvæma aðstoð við meðferð ákveðinna brota sem beinast gegn neytendum. Þau brot sem falla undir reglugerðina eru brot gegn lagaákvæðum sem innleiða þær gerðir Evrópusambandsins á sviði neytendaverndar sem taldar eru upp í reglugerðinni, alls 14 tilskipanir og ein reglugerð.

Á grundvelli reglugerðarinnar skulu tilnefnd lögbær stjórnvöld í hverju landi sem bera ábyrgð á framkvæmd reglugerðarinnar. Lögbærum stjórnvöldum í hverju aðildarríki EES-samningsins er heimilað að grípa til aðgerða gegn fyrirtæki frá aðildarríkinu, sem starfar á því sviði sem stjórnvald fer með eftirlit á, án tillits til þess í hvaða ríki innan EES-svæðisins neytandi, sem verður fyrir tjóni vegna brotsins, er staddur.

Skulu lögbær stjórnvöld hafa þær rannsóknar- og eftirlitsheimildir sem kveðið er á um í reglugerðinni, en framkvæmd rannsókna og eftirlits skal vera í samræmi við löggjöf hvers lands. Þó er gerð krafa um að stjórnvöldin hafi nánar tilteknar lágmarksrannsóknar- og eftirlitsheimildir til að framfylgja þeim ákvæðum sem falla undir reglugerðina.

Til að uppfylla ákvæði reglugerðarinnar hafa íslensk stjórnvöld tilnefnt lögbær stjórnvöld og miðlæga tengiskrifstofu. Þau stjórnvöld sem tilnefnd voru lögbær stjórnvöld eru Neytendastofa, Fjármálaeftirlitið, Lyfjastofnun, Flugmálastjórn Íslands og útvarpsréttarnefnd. Neytendastofa var jafnframt tilnefnd miðlæg tengiskrifstofa.

Á grundvelli reglugerðarinnar ber lögbærum stjórnvöldum á Íslandi að veita lögbærum stjórnvöldum annarra ríkja á EES-svæðinu gagnkvæma aðstoð. Þannig ber íslensku stjórnvaldi, sem fær beiðni frá erlendu stjórnvaldi um að kanna hvort íslenskur aðili hafi brotið gegn einhverju þeirra ákvæða sem falla undir reglugerðina, að veita erlenda stjórnvaldinu allar þær upplýsingar sem nauðsynlegar eru til að meta hvort um sé að ræða brot. Ef niðurstaðan er sú að brotið hafi verið gegn ákvæðum íslenskra laga sem innleiða þær gerðir sem falla undir reglugerðina ber viðkomandi íslensku stjórnvaldi að grípa til þeirra aðgerða sem nauðsynlegar eru til þess að stöðva brotið. Yfirvald sem beiðni er beint til getur þó við ákveðnar nánar tilgreindar aðstæður neitað að verða við beiðninni.

Í reglugerðinni er einnig kveðið á um upplýsingaskipti án beiðni. Þannig ber lögbæru stjórnvaldi, sem verður kunnugt um brot innan Evrópska efnahagssvæðisins eða hefur rökstuddan grun um slíkt brot, að tilkynna öðrum lögbærum stjórnvöldum og framkvæmdastjórn Evrópusambandsins um það.

Til að auðvelda samstarfið hefur framkvæmdastjórnin sett upp rafrænan gagnagrunn þar sem upplýsingar sem lögbær stjórnvöld hafa gefið verða geymdar og unnar. Verður gagnagrunnurinn einungis aðgengilegur lögbærum stjórnvöldum.

Vegna innleiðingar reglugerðar nr. 2006/2004 þarf að gera breytingar á nokkrum lagabálkum og eru tillögur að nauðsynlegum lagabreytingum gerðar í frumvarpi sem lagt er fram samhliða frumvarpi þessu. Reglugerðin hefur þegar öðlast gildi og þarf því að innleiða hana í íslenskan rétt sem fyrst.

Hæstv. forseti. Ég legg til að frumvarpinu verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. efnahags- og viðskiptanefndar og 2. umr.