133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

úrvinnslugjald.

451. mál
[18:59]
Hlusta

Frsm. umhvn. (Guðlaugur Þór Þórðarson) (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Eins og ég nefndi áðan þá er í þessu tilfelli fyrst og fremst um að ræða breytingar varðandi gjaldskrána. Þetta er nokkuð sem við höfum í rauninni gert á hverju ári. Í þetta skiptið var ekki umræða í nefndinni um álagningu á fleiri flokka eins og hv. þingmaður nefndi.

En það hefur að sjálfsögðu oft verið rætt í nefndinni og það er æskilegt að það verði eins mikil úrvinnsla á pappír og mögulegt er. Enda hefur reyndin verið sú að það hefur sem betur fer aukist, a.m.k. síðast þegar sá sem hér stendur skoðaði það. En svarið við þeirri spurningu hvort þetta hafi verið rætt í nefndinni núna, virðulegi forseti, er einfaldlega neitandi. Það var ekki gert í þetta skiptið.