133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

tekjuskattur.

66. mál
[19:22]
Hlusta

Flm. (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Þetta er í þriðja sinn sem frumvarpið er lagt fram á þingi. Það hefur aldrei fengið fullnaðarafgreiðslu og leggur þingflokkur Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs það því fram að nýju. Að baki því standa allir þingmenn þingflokksins og er ég 1. flutningsmaður.

Í frumvarpinu er gert ráð fyrir að hækka fjármagnstekjuskatt úr 10% í 18%. Þar með yrði komið á samræmi á milli skattlagningar á tekjur fyrirtækja annars vegar og tekjur af fjármagni hins vegar. Það er okkar skoðun að stefna eigi í þá átt að skattstofnar verði skattlagðir með ámóta hlutfalli, að okkur beri að stefna að því að færa til samræmis skatta á fyrirtæki og einstaklinga og er þetta spor í þá átt. Við leggjum til að skattleysismörk verði við 120.000 kr. tekjur af fjármagni á ári, en það er athyglisvert að yrði það gert má gera ráð fyrir að rúm 9% einstaklinga og ríflega 70% hjóna sem nú greiða fjármagnstekjuskatt yrðu undanþegin skattinum.

Þetta minnir á að fjármagnstekjur eru jafnt innheimtar á smásparandanum sem og hinum tekjumikla. Við höfum orðið þess áskynja að í samfélaginu breytist tekjumunstrið óðfluga. Það hefur komið fram í gögnum frá skattyfirvöldum að ætla megi að fjármagnstekjur séu meira en helmingur tekna þeirra 5% framteljenda sem hæstar tekjur hafa í þjóðfélaginu. Maður spyr sig hvernig á því standi að fólk sem aflar tekna með þessum hætti sé ekki skattlagt á sambærilegan hátt og fólk sem aflar viðurværis með launavinnu.

Fjármagnstekjuskattur á árinu 2007 var samkvæmt fjárlagafrumvarpi áætlaður um 19 milljarðar kr. Með skattbreytingunni mundu tekjur ríkissjóðs aukast um nokkra milljarða kr. Þar er kannski komin ein ástæða og réttlæting fyrir frumvarpinu, en það er ekki síst í samræmingarátt sem við stefnum og leitum til að finna röksemdir fyrir breytingunni.

Með frumvarpinu er að finna ítarlegar upplýsingar um skattlagningu fjármagnstekna í öðrum löndum: Bandaríkjunum, Danmörku, Finnlandi, Noregi, Írlandi, Svíþjóð og víðar. Þar kemur fram að fjármagnstekjuskattur er víðast hvar hærri en á Íslandi. Menn hafa oft haft á orði að ef fjármagnstekjuskattur yrði hækkaður (KÓ: Þess vegna búa fjármagnstekjueigendur hér.) mundi fólk halda úr landi með peningana sína. En þá er spurningin: Hvert fara þeir? Reyndar er það vitað að margir þeirra sem hafa mest fjárráð á Íslandi búa alls ekki hér. Þeir búa í skattaparadísum, eru skráðir á Gíbraltar, á Cayman-eyjum eða Ermasundinu því að þeir fara í skjól með fjármagn sitt og neita að greiða til samfélagsins eins og þeim ber að gera.

Menn tala stundum um skatta eins og það eðlilegasti hlutur í heimi að við losum okkur við alla skattlagningu og að allt sem horfir til lækkunar þeirra sé til góðs. Þröngt skoðað er það hagur hvers aðila að fá lækkaða á sig skattana. Við erum öll sammála um að við viljum fjármagna góða samfélagsþjónustu, heilbrigðiskerfi, skóla, samgöngukerfi og þar fram eftir götunum. Þá er spurningin um hvernig við dreifum skattbyrðinni, að við gerum það á réttlátan hátt. Það er ekki gert á Íslandi í dag.

Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um frumvarpið, hæstv. forseti. Ég hef áður gert ítarlega grein fyrir þingmálinu og vísa í fyrri röksemdir þar að lútandi. Ég legg til að það gangi til hv. efnahags- og viðskiptanefndar til umfjöllunar að lokinni þessari umræðu.