133. löggjafarþing — 74. fundur,  20. feb. 2007.

áhrif rafsegulsviðs farsíma og rafsegulbylgna á mannslíkamann.

6. mál
[19:35]
Hlusta

Ögmundur Jónasson (Vg):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta þingmál sem ég styð heils hugar, hef held ég áður verið einn flutningsmanna á þingmálinu. Spurningin er hvort þurfi frekar vitnanna við. Hér er talað um að fram fari allsherjarrannsókn sem standi til ársins 2017, eða í tíu ár, á áhrifum rafsegulsviðs farsíma og rafsegulbylgna á mannslíkamann. Í greinargerð með tillögunni er vísað í erlendar rannsóknir og hv. 1. flutningsmaður, Drífa Hjartardóttir, hefur vísað einnig í erlendar rannsóknir sem hafa leitt mjög sterkar líkur að því að rafsegulbylgjur hafi skaðleg áhrif á mannslíkamann.

Spurning er hvort ekki megi beina rannsóknum inn í könnun á því hvað hægt er að gera til að draga úr skaðlegum áhrifum rafsegulbylgna á mannslíkamann vegna þess, eins og hér kemur fram og ég vék að, eru yfirgnæfandi líkur á því að þessi áhrif séu skaðleg. Hitt er svo annað mál að það er eðlilegt og jákvætt að Íslendingar taki þátt í alþjóðlegri rannsókn á þessu sviði og leggi sitt af mörkum. Ég ítreka því að ég styð þingsályktunartillöguna og vona að hún nái fram að ganga nú í vor en beini því einnig til tillöguflytjenda hvort ekki væri æskilegt að taka þetta sjónarhorn með í reikninginn þegar málin eru athuguð, að draga úr skaðlegum áhrifum sem vitað er að eru fyrir hendi.