133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:13]
Hlusta

Björgvin G. Sigurðsson (Sf):

Virðulegi forseti. Fyrir 10 árum var Ísland stéttlausasta land í Evrópu. Núna 12 árum seinna, kom fram í grein eftir Þorvald Gylfason prófessor á dögunum, er Ísland stéttskiptasta land í allri Evrópu. Þetta er árangur af 12 ára setu hægri flokkanna við völd, og hver eru dæmin sem sanna þetta? Það eru verðbólguskatturinn, fátækraskatturinn og fjöldi annarra dæma. Það eru ofurvextirnir, verðbólgan, hæsta matvælaverð í heimi, lengsti vinnudagur í heimi og lygilegt virðingarleysi við eldri borgara eins og speglast í kjörum og aðstæðum þeirra.

Hér er engilsaxneskur ójöfnuður eftir 12 ára setu hægri flokkanna, þetta er stéttskiptasta land í Evrópu. Þetta er árangurinn af ójafnaðarstefnu ójafnaðarflokkanna tveggja í 12 ár. Dæmin tala sínu máli. Barnabætur hafa rýrnað um 10 milljarða að verðgildi á 10 árum. Hefðu skattleysismörk fylgt launavísitölu væru þau núna 136 þús. í staðinn fyrir 90 þús. og það er hinn raunverulegi og sanni fátækraskattur sem ríkisstjórn Sjálfstæðis- og Framsóknarflokks hefur sett á bótaþega og láglaunafólk í þessu landi. Mörg önnur dæmi mætti telja og það sem er mest sláandi snýr að unga fólkinu og húsnæðiskaupendum. Ef það er tekið dæmi um 15 millj. kr. húsnæðislán í 40 ár á Evrópukjörum annars vegar og hins vegar í íslensku lána- og verðbólguumhverfi kemur í ljós að sá sem tekur lánið á Evrópukjörunum borgar af því 24 millj. en sá sem tekur það í íslenska umhverfinu borgar 74 millj.

Það munar 50 millj. kr. á heildarafborgunum á 40 árum af 15 millj. kr. láni. Þetta er verðbólguskatturinn sem íslenskir húsnæðiskaupendur þurfa að dröslast með, þetta eru afleiðingarnar af óstjórn hægri flokkanna hér í 12 ár. Þetta er öll jafnaðarstefna Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks. Það er verðbólguskatturinn og það er fátækraskatturinn.