133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:18]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Þegar meta á lífskjör þarf að horfa til fleiri þátta en framsögumaður nefndi. Það þarf að líta til vinnutíma, verðlags, kostnaðar af opinberri þjónustu, skatta og dreifingu tekna. Ef við horfum til þessara hluta og byrjum á vinnutíma eru nýlegar upplýsingar þær að meðalvinnutími hér á landi eru 47,1 klukkustund á viku en í Evrópusambandslöndunum 25 er hann 42 klukkustundir. Þetta eru auðvitað lífsgæði líka, virðulegi forseti.

Verðlag hér á landi er með því hæsta sem gerist í heimi. Verðbólgan er meiri hér en í flestum öðrum löndum. Kostnaður almennings af verðbólgu á þessu kjörtímabili umfram þau 2,5% sem ríkisstjórnin setti sér var um 100 milljarðar kr. um síðustu áramót. Á almenning hefur verið velt vegna verðbólgunnar kostnaði sem nemur einni Kárahnjúkavirkjun. Vextir hér á landi eru hærri en í öðrum löndum Evrópu sem nemur 2–5 prósentustigum að raungildi. Það felur í sér kostnað á venjulega íslenska fjölskyldu sem nemur allt að hálfri milljón kr. á ári umfram það sem gerist annars staðar.

Hagdeild ASÍ gaf í fyrra út skýrslu um lífskjör á Norðurlöndum. Hún leiddi það í ljós að opinber þjónusta var dýrust á Íslandi af Norðurlöndunum. Kostnaður fjölskyldna af heilbrigðisþjónustu og lyfjum var hærri hér en í hinum löndunum og kostnaður fjölskyldna af menntun og tómstundum barna sinna var hærri hér en í hinum löndunum. Það er því að mörgu að hyggja, virðulegi forseti, og þó að undir það skuli tekið að lífskjör hér séu góð þá eru þau ekki í þeim hæðum sem hv. framsögumenn vilja vera láta og misskipting hefur vaxið á síðustu árum eins og hér hefur verið dregið fram. Þetta verða menn allt að hafa í huga þegar þeir meta árangurinn, virðulegi forseti.