133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:23]
Hlusta

Katrín Júlíusdóttir (Sf):

Virðulegi forseti. Þetta hafa verið merkilegar ræður og ég verð að segja alveg eins og er að mér blöskrar það hvernig stjórnarþingmenn koma hér upp með hæstv. ráðherra í broddi fylkingar og reyna að breiða yfir þá staðreynd að kaupmáttaraukningunni, sem verið hefur í landinu á undanförnum 12 árum, hefur verið misskipt. Staðreyndin er sú að þeir sem hæstar hafa tekjurnar hafa fengið um 80% kaupmáttaraukningu á meðan þeir sem lægstar hafa tekjurnar hafa fengið um 26% kaupmáttaraukningu. Lífeyrisþegar hafa ekki fengið nema 16% kaupmáttaraukningu, þeir sem lægstar hafa tekjurnar í þeim hópi. (Gripið fram í.) Þetta eru staðreyndir sem við skulum ræða, þetta er sá raunveruleiki (Gripið fram í.) sem við búum við og meðaltöl segja ekkert um kjör fólks og hinna mismunandi hópa í landinu. Og það er móðgun við þessa hópa, lágtekjuhópa og lífeyrisþega, að halda því fram að þeir hafi fengið gríðarlega kaupmáttaraukningu á undanförnum árum þegar þeir finna það á eigin skinni hvernig þeir hafa verið að dragast aftur úr.

Hv. þm. Guðjón Ólafur Jónsson ætti að spyrja félaga sinn í Framsóknarflokknum, Björn Inga Hrafnsson, hvers vegna honum er svo mikið í mun að taka upp skólabúninga á Íslandi. Það er til þess að fela þann gríðarlega ójöfnuð sem birtist okkur á hverjum einasta degi í fatnaði barnanna í skólunum. Þetta eru staðreyndir sem við skulum ræða hér, virðulegi forseti, en ekki þennan blekkingarleik sem um hefur verið rætt. Við skulum (Gripið fram í.) tala um raunveruleikann nákvæmlega eins og hann er.

Við vitum að rótin að þessu er auðvitað skattalækkanir ríkisstjórnarinnar sem bjuggu þennan ójöfnuð til, sem bjuggu þessa misskiptingu til. Þetta kemur fram í svari frá hæstv. fjármálaráðherra, svari við fyrirspurn hv. þm. Rannveigar Guðmundsdóttur þar sem fram kemur að þeir einir hafa fengið lækkaða skatta, þ.e. þau 10% sem hæstar hafa tekjurnar í þessu landi. Allir aðrir hópar hafa fengið aukna skattbyrði, allir aðrir hópar.