133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

þróun kaupmáttar hjá almenningi.

[12:29]
Hlusta

fjármálaráðherra (Árni M. Mathiesen) (S):

Frú forseti. Óneitanlega athyglisverð umræða, það er ekki hægt að segja annað. Það er eins og hv. þingmenn geri sér ekki grein fyrir þegar þeir ræða þessi mál, að þegar við erum að tala um kaupmátt ráðstöfunartekna er búið að taka tillit til verðlagsbreytinga og þá er búið að taka tillit til breytinga á húsnæðiskostnaði. Samt er niðurstaðan sú að kaupmáttur ráðstöfunartekna hefur aukist að meðaltali um tæplega 5% á ári síðan 1995. (ÖJ: Ekki fyrir þá sem eru að kaupa húsnæði.) Síðan segja menn að við séum að tala í meðaltölum. (ÖJ: Það er málið.) Jú, auðvitað er erfitt að ræða svona mál án þess að nefna einhver meðaltöl. (Gripið fram í.) Ég vitnaði til þriggja kannana á jöfnuði þar sem við erum í fremstu röð og ég vitnaði sérstaklega til þess hvernig okkur hefði tekist að bæta hag þeirra sem minnst hafa og okkur hefur tekist mun betur en öðrum hefur tekist í þeim efnum á þessu tímabili sem hér um ræðir.

Ég verð að viðurkenna fyrir hönd frænda míns, Þorvaldar Gylfasonar hagfræðings, að það virðist eins og hann hafi gert mistök þegar hann var að reikna út Gini-stuðulinn og það hefur hann örugglega ekki gert viljandi, við frændur erum ekki þannig menn. En að hann hafi haldið því fram, (Gripið fram í.) að Þorvaldur Gylfason hafi haldið því fram að stéttaskipting hafi orðið til á Íslandi á 12 árum, það hvarflar ekki að mér að hann hafi haldið slíku fram. (Gripið fram í.) Það hvarflar ekki að mér að maður eins og Þorvaldur Gylfason haldi slíkri vitleysu fram, að stéttaskipting verði til í einu þjóðfélagi á 12 árum, að áhrifamáttur einnar ríkisstjórnar (Gripið fram í.) sé svo mikill að stéttaskipting geti orðið til á því tímabili. (Gripið fram í.) Hvers konar dellu eru menn að reyna að halda fram í umræðunni? Staðreyndin er hins vegar sú að áhrifamáttur ríkisstjórnarinnar getur verið slíkur (Forseti hringir.) í gegnum breytingar á sköttum markaðsvæðingu og þáttum í alþjóðavæðingu, að bæta má kaupmáttinn á þennan hátt, eins og ég hef lýst, um tæplega 5% á ári. Og geri aðrir betur. (Gripið fram í.)