133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:40]
Hlusta

Þórunn Sveinbjarnardóttir (Sf):

Frú forseti. Það er auðvitað gott að hæstv. heilbrigðis- og tryggingamálaráðherra skuli hafa lagt fram aðgerðaáætlun í september sl. Það er ágætt. Þá hafði Framsóknarflokkurinn setið í heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneyti í 15 ár eða svo. Það er líka mjög gott að í gær hafi verið tekin skóflustunga að göngudeild við barna- og unglingageðdeild. Ef ég man rétt voru teikningar af þessari stækkun tilbúnar fyrir átta árum, gætu verið sjö ég held að þau séu átta. Hún var fyrst kynnt fyrir sex árum, aftur fyrir rúmum fimm árum, henni var lofað fyrir síðustu kosningar 2003 og aftur í fyrra minnir mig og nú er enn einu sinni á ferð loforðið um stækkun BUGL vonum seinna, en það er þó gott að búið er að taka fyrstu skóflustunguna. Það er líka eftirtektarvert að göngudeildin er m.a. byggð fyrir framlög félagasamtaka og einstaklinga en ekki einvörðungu fyrir framlög úr ríkissjóði.