133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:44]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Full ástæða er til að óska okkur öllum til hamingju með að farið er að byggja við BUGL. Í tilefni af orðum hv. þm. Björgvins G. Sigurðssonar á undan mér þá er engin skömm að því að nýta söfnunarfé frá aðilum úti í bæ. Það er sterk hefð fyrir því. Ég bendi m.a. á að Landspítalinn var á sínum tíma byggður fyrir fé sem var safnað af kvenfélögunum og það sama á við um Barnaspítala Hringsins.

Ég kem hingað upp ekki síst til þess að ræða um þá mikilvægu aðgerðaáætlun sem kom fram sl. haust í málum geðfatlaðra barna. Hún er til þess fallin að stytta biðlista eftir þjónustu og færa þjónustuna á það stig að hægt verði að bregðast við áður en börn þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Með því móti er þörfum barnanna og fjölskyldna þeirra betur mætt og þeim er mætt á réttu þjónustustigi.