133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

barna- og unglingageðdeildin.

171. mál
[12:48]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Það er mjög mikilvægt að draga fram í þessu sambandi að bráðamálin bíða ekki, þau eru alltaf í forgangi, en það hefur verið biðlisti vegna annarra mála og með aðgerðaáætluninni bind ég vonir við að biðlisti styttist. Vonandi hverfur hann. Það er auðvitað alltaf erfitt að fullyrða um slíkt en að því er stefnt. Ég vísa aftur í orð sviðsstjóra á hjúkrunar- og geðdeildinni sem taldi að þeir gætu styst eða jafnvel horfið á þessu ári. Árið er ekki liðið og við vitum ekki nákvæmlega hvernig til tekst með aðgerðaáætlunina en að minnsta kosti er hún góð og henni hefur verið fagnað almennt af m.a. foreldrasamtökum barna og við vinnum eftir henni af eins miklum sóma og okkur er unnt.

Göngudeildarbyggingin, sem getið var um í fyrra svari mínu, hófst í gær en gefið var í skyn áðan að þetta væri kannski eitthvert blöff eða eitthvað slíkt en það er alls ekki. Búið er að fjármagna bygginguna þannig að fjármagnið er komið í höfn. Það er rétt að félagasamtök komu með hluta af fjármagni inn og ríkið kom með rest og einnig var ein eign seld upp í þetta sem hafði verið nýtt af Landspítalanum á fyrri tíð.

Ég tel að mjög vafasamt sé þegar þingmenn fara að hallmæla því að gefið sé fé í svona verkefni. Hér var hv. þm. Björgvin G. Sigurðsson sérstaklega að hallmæla því. Ég tel að það sé mjög gott ef frjáls félagasamtök gefa í góð verkefni. (Gripið fram í.) Ég vil sérstaklega minna á að konur byggðu t.d. Landspítalann næstum því einungis … (Gripið fram í.) Konur gáfu í tilefni þess að þær fengu kosningarrétt, ég held að þær hafi gefið einn þriðja eða helming af framkvæmdafénu, sem var alveg ótrúlega góður árangur. Ég tel því að frjáls félagasamtök geti komið til hjálpar bæði varðandi tækjakaup og annað í góð verkefni.