133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

slysavarnir aldraðra.

269. mál
[12:53]
Hlusta

heilbrigðisráðherra (Siv Friðleifsdóttir) (F):

Virðulegur forseti. Því er til að svara að árið 2002 hófst formleg skráning í slysaskrá Íslands með það að markmiði að samræma skráningu slysa, veita yfirlit yfir fjölda, orsakir þeirra og afleiðingar auk þess að skapa möguleika á ítarlegum rannsóknum. Markvissar forvarnir og skipulagning slysavarna grundvallast á þekkingu á þessum atriðum.

Flest slys á öldruðum verða á eða við heimili þeirra og um tveir þriðju hlutar allra slysa á öldruðum verða vegna falls eða byltu. Næstalgengasta orsök áverka eru árekstrar af einhverju tagi, en aðrar orsakir eins og bruni, skurðir eða eitranir eru frekar fátíðar. Aldraður sem hefur lent í byltu er allt að því þrisvar sinnum líklegri en aðrir til að detta aftur innan árs. Áhætta eykst með hækkandi aldri. Kynferði skiptir máli því áhætta eykst með hækkandi aldri hjá konum en síður hjá körlum. Af fleiri áhættuþáttum má nefna lyfjanotkun, tiltekna sjúkdóma, andlegt ástand, næringarástand, fótavandamál, slæma sjón og hættur í umhverfinu.

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður spyr um fyrirbyggjandi aðgerðir til að draga úr slysum á öldruðum. Á öldrunarsviði Landspítalans er starfrækt byltu- og beinverndarmóttaka fyrir þá sem orðið hafa fyrir byltum eða eru taldir í slíkri hættu. Landlæknir hefur gefið út klínískar leiðbeiningar um greiningu og meðferð beinþynningar og einnig um forvarnir og meðferð mjaðmabrota hjá öldruðum þar sem m.a. er fjallað um byltuforvarnir. Gagnrýndar rannsóknir hafa sýnt fram á að sé farið vandlega yfir mál þeirra sem hljóta byltu má draga úr sjúkrahúsinnlögnum, fötlun og umfram allt bæta lífsgæði. Beinvernd, landssamtök áhugafólks um beinþynningu, vinnur gott starf og stendur m.a. að fræðslu fyrir almenning og fagfólk sem byggist á bestu þekkingu á hverjum tíma um beinþynningu og varnir gegn henni.

Líkamsrækt er mikilvæg byltuforvörn og fellur undir 1. stigs forvarnir. Einstaklingur ber þar mesta ábyrgð sjálfur en hlutverk heilbrigðisþjónustunnar er að upplýsa og hvetja fólk til dáða. Heilbrigðisráðuneytið, Lýðheilsustöð og Íþrótta- og Ólympíusamband Íslands er nú komið af stað með tilraunaverkefni sem kallast hreyfing fyrir alla. Markmiðið er að fjölga skipulögðum tilboðum um markvissa hreyfingu fyrir fullorðið og eldra fólk og skapa tækifæri til að sinna þeim sem skortir hvatningu og stuðning til að hreyfa sig. Hjá heilsugæslu og félagsþjónustu sveitarfélaganna eru miklir möguleikar til forvarna, m.a. til að draga úr byltum og afleiðingum þeirra. Heilsueflandi heimsóknir til aldraðra er þjónusta sem hefur verið tekin upp nokkuð víða og ég hvet til að verði skipulögð um allt land. Með því gefst kostur á að kanna heimilisaðstæður aldraðra, leiðbeina um úrbætur á húsnæði og notkun hjálpartækja.

Þá má geta þess að slysavarnadeildir innan Landsbjargar um allt land standa fyrir öflugu forvarnastarfi með fræðslu til aldraðra og í haust hófst verkefni sem miðar að því að heimsækja aldraða, 75 ára og eldri, til að yfirfara hættur á og við heimili þeirra. Þetta verkefni er í þróun og hefur fallið í góðan jarðveg hjá öldruðum, þ.e. þeim sem hafa verið heimsóttir. Byltur meðal aldraðra á sjúkrahúsum, heilbrigðisstofnunum og öldrunarstofnunum eru nokkuð tíðar og þarf að draga úr þeim eins og kostur er. Samkvæmt RAI-mælingum á hjúkrunarheimilum á síðasta ári hlutu 30% íbúanna byltu á sex mánaða tímabili. Alls beinbrotnuðu 6% íbúa á hjúkrunarheimilunum á því tímabili.

Klínískar leiðbeiningar eru ein leið til að draga úr byltum. Á Landspítalanum hafa verið gerðar þverfaglegar klínískar leiðbeiningar í þessu skyni sem verða innleiddar þar á næstu mánuðum.

Virðulegur forseti. Meðal markverðra aðgerða sem ráðist hefur verið í, og ég bind vonir við að munu draga úr byltum aldraðra á stofnunum, er lyfjastefna sem nú hefur verið tekin upp á dvalar- og hjúkrunarheimilum sem eiga aðild að samtökum fyrirtækja í heilbrigðisþjónustu. Auk sameiginlegrar lyfjastefnu hafa dvalar- og hjúkrunarheimilin sameiginlega lyfjanefnd til að fjalla um þessi mál. Samkvæmt stefnunni er stefnt að því að aldraðir sem eru á nýjum lyfjum eða fleiri fái sérstaka skoðun, lyf þeirra yfirfarin og þeim fækkað ef efni standa til. Þetta er mjög mikilvægt því það hefur sýnt sig og verið sannað með rannsóknum að fækkun lyfja dregur úr möguleikum á mistökum og byltum, bætir meðferðarheldni og eykur lífsgæði einstaklinganna. Ráðuneytið vinnur að því að koma þeirri stefnu víðar að innan heilbrigðisþjónustunnar.

Hv. þingmaður spyr hvort ég telji þörf á lagabreytingu til að ná betri árangri í slysasvörnum aldraðra. Ég tel við fyrstu sýn að svo þurfi ekki að vera. Mestu skiptir að skipuleggja slysavarnir vel og beina þeim í þann farveg þar sem þær koma að mestu gagni. Það gerum við best með því að nýta þau tæki og upplýsingar sem við höfum með því að byggja á þekkingu sérfræðinga og nýta okkur gagnrýnd úrræði á þessu sviði.