133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

slysavarnir aldraðra.

269. mál
[12:58]
Hlusta

Ásta Möller (S):

Virðulegi forseti. Ljóst er að slysavarnir aldraðra munu margborga sig hvernig sem á það er litið. Samkvæmt úttektum sem hafa verið gerðar er fall algengasta slys sem hendir aldraða í 73% tilfella og í 75% tilvika gerist það á heimilum fólks vegna m.a. lausra mottna, þröskulda og rafmagnssnúra sem eru í gangveginum o.s.frv.

Að mínu mati ætti það ekki síst að vera hlutverk heilsugæslunnar að takast á við þessa þætti og ég bendi á að heilsugæslustöðvar víða um land hafa tekið upp reglubundnar heimsóknir til aldraðra, m.a. í þeim tilgangi að skoða slysagildrur. Það er til fyrirmyndar og ætti að taka upp á öllum stöðum.

Jafnframt tek ég undir það sem kom fram í máli hæstv. ráðherra varðandi slysavarnir í kringum lyfjagjöf. Við sem sitjum í heilbrigðis- og trygginganefnd veittum því athygli þegar við heimsóttum hjúkrunarheimilið Sóltún að einmitt lyfjastefna og slysavarnir fækkuðu marktækt slysum á stofnuninni.