133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

slysavarnir aldraðra.

269. mál
[13:00]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Ásta R. Jóhannesdóttir) (Sf):

Frú forseti. Ég þakka umræðuna og hæstv. ráðherra svörin. Slysavarnir eru mjög mikilvægar og ekki síst hjá öldruðum og ég heyri hjá hæstv. ráðherra að verið er að gera ýmislegt gott, en kannski mætti segja að heildræna stefnu vantaði í slysavörnum aldraðra. Það var a.m.k. sú niðurstaða sem fékkst á þinginu sem ég sat. Ég heyri að ýmislegt er að gerast hjá Landsbjörgu, Landakoti og Landspítalanum.

Einnig vil ég taka undir mikilvægi lyfjastefnunnar. Það voru mjög merkilegar upplýsingar sem heilbrigðis- og trygginganefnd fékk í heimsókn á Sóltún um árangurinn af því að fækka lyfjum og hvernig áhrif það hefur haft á aldraða. Það er líka merkilegt að konur slasast oftar en karlar á efri árum þannig að þetta er mikið baráttumál í rauninni í kvennabaráttunni að tryggja og standa vel að slysavörnum aldraðra.

Ég var hissa á svari ráðherra við fyrirspurninni um hvort þyrfti að breyta lögum til að bæta slysavarnir aldraðra. Í nágrannalöndum hefur verið farið markvisst yfir hina ýmsu löggjöf til að tryggja betur heilsu aldraðra. Það hefur t.d. verið farið yfir umferðarlögin og ýmis önnur lög til að tryggja betur slysavarnir aldraðra. Ég nefndi t.d. hitaveitur, lög um heitt vatn o.s.frv. sem var bent á. Ég hefði því talið ástæðu til að skoða löggjöfina út frá þeim markmiðum sem við setjum okkur í að bæta slysavarnir gagnvart öldruðum. Það er svo auðvitað til bóta þegar slysaskráningin hefur batnað svo mjög eins og fram kom í máli hæstv. ráðherra.