133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:05]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Ég vil beina eftirfarandi fyrirspurn til hæstv. heilbrigðisráðherra:

Hyggst ráðherra beita sér fyrir því að fram fari útboð á rekstri þeirra dvalar- og hjúkrunarrýma sem ráðherra hefur boðað á næsta kjörtímabili og að þjónusta sem þar á að veita verði skilgreind með þjónustusamningum við viðkomandi stofnanir?

Það verður að segjast eins og er, því miður, að ekki er skilgreind nein lágmarksþjónusta á þeim stofnunum þrátt fyrir að Ríkisendurskoðun hafi gefið út það álit að slíkt skuli gert. Það kom fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá haustinu 2005, eða fyrir einu og hálfu ári, að það beri að gera, enda hljótum við að gera þá kröfu að skilgreind sé einhver lágmarksþjónusta. Við höfum því miður dæmin fyrir okkur að sú þjónusta sem öldruðum er boðið upp á er ekki boðleg og m.a. má benda á að sumir aldraðir búa við það að þurfa að búa í þvingaðri sambúð með öðrum inni á herbergjum. Þegar verið er að veita svona háar upphæðir, eins og veitt er í þennan málaflokk, 15 þús. milljónir árlega, hlýtur að þurfa að skilgreina hvaða þjónustu á að veita fyrir þessa háu upphæð til að ná árangri. Þetta kemur fram í skýrslu Ríkisendurskoðunar og nú vil ég ítreka spurninguna hvort hæstv. ráðherra hyggist þá gera einhverjar lágmarkskröfur til þeirra nýju stofnana sem verið er að setja á fót. Mér finnst það vera lágmark að það verði gert.

Við verðum að gæta að því að það ástand sem við búum við í þessum málaflokki er ófremdarástand. Það er ófremdarástand þegar fram kemur í skoðanakönnun sem tímaritið Ísafold gerði að mikill meiri hluti landsmanna vill ekki dvelja á þessum heimilum. Það segir auðvitað sína sögu um ástand málaflokksins, að meiri hluti landsmanna vilji ekki sætta sig við að þiggja þá þjónustu sem hið opinbera á að veita. Og við höfum því miður, frú forseti, nýleg dæmi um að þegar þjónusta sem verið er að veita af opinberu fé sem átti að nýta til góðrar starfsemi, er ekki skilgreind og peningar veittir eftirlitslaust til slíkrar starfsemi, þar nefni ég m.a. Byrgið. Það kann ekki góðri lukku að stýra þegar fjármunir eru veittir án þess að það sé með nokkrum hætti skilgreint til hvers á að nota viðkomandi peninga. Við sem viljum fara vel með opinbert fé hljótum því að gera þá kröfu að gerðir verði einhverjir þjónustusamningar í þessum málaflokki. Annað er óásættanlegt, virðulegi forseti.