133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:14]
Hlusta

Kristinn H. Gunnarsson (Fl):

Virðulegi forseti. Í skýrslu Ríkisendurskoðunar frá því í október 2005 kemur fram að munur sé á gæðum og magni þjónustu eftir stofnunum. Það kemur reyndar orðrétt fram að ekki sé alltaf samsvörun á milli kostnaðar og þjónustustigs. Það er auðvitað, virðulegi forseti, fráleitt að ríkissjóður sé að greiða út 15 milljarða kr. á ári án þess að um sé að ræða samning við þann aðila sem veitir þjónustuna þar sem skilgreind er sú þjónusta sem hver einstaklingur á rétt á að fá og eitthvert eftirlit sé með því að einstaklingarnir fái þá þjónustu sem ríkið er að leggja peninga út fyrir þá.

Ég minni á, virðulegi forseti, að það vekur undrun að sum heimili virðast geta safnað fé í sjóði sem þau síðan nota til bygginga. Hvaðan kemur það fé annars staðar en frá ríkinu sem á að nota til þjónustu fyrir íbúana en virðist ekki vera gert?