133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:16]
Hlusta

Þuríður Backman (Vg):

Hæstv. forseti. Það er ljóst að daggjaldagreiðslur, bæði til dvalar- og hjúkrunarheimila, eru allt of lágar í dag. Það hefur sérstaklega valdið hjúkrunarheimilunum miklum erfiðleikum sem hefur orðið til þess að þau hafa brugðið á það ráð að taka upp ýmis sparnaðarráð sem eru ekki til eftirbreytni, m.a. komið þvotti og annarri þjónustu yfir á aðstandendur. Það hefur gengið svo langt að aðstandendur hafa meira að segja tekið að sér hluta af eftirliti eða dagþjónustu inni á deildunum og þetta er náttúrlega ekki til fyrirmyndar. RAI-matið mun að einhverju leyti koma til móts við þetta.

Ég vara við því að menn horfi eingöngu á útboð, mér þykir eðlilegra að horfa til þess að ekki sé verið að hafa þennan rekstur að féþúfu fyrir þá sem vilja reka slíkar stofnanir, að ekki sé horft á rekstur út frá arðsemiskröfum. Í því sambandi vil ég benda á góða þjónustu DAS og þeirra sem hafa rekið öldrunarþjónustu með sameignarforminu.