133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:17]
Hlusta

Ásta R. Jóhannesdóttir (Sf):

Frú forseti. Þetta er mjög mikilvæg umræða og ég er á þeirri skoðun að ríkisvaldið eigi ekki fela öðrum verkefni og þjónustu fyrir sig fyrir þriðja aðila án þjónustusamninga þar sem tilgreint er hvaða þjónustu eigi að veita, hvaða aðbúnað, hversu mikið það á að kosta og það á að vera samræmi í þeirri þjónustu. Það er ófremdarástand í þessum málum eins og hv. fyrirspyrjandi benti hér á. Það eru 70 manns á biðlista inni á Landspítala eftir því að komast inn á hjúkrunarheimili, 400 bíða í brýnni þörf, 900 eru þvingaðir í samvist með ókunnugum o.s.frv. Gamla fólkið er látið borga fyrir þjónustu af mjög lágum vasapeningum og dæmi eru um að fólk sem er inni á þessum stofnunum hafi ekki einu sinni efni á að kaupa sér gleraugu vegna þess að vasapeningarnir fara allir í að greiða fyrir þjónustu sem það þarf nauðsynlega á að halda inni á stofnuninni.