133. löggjafarþing — 75. fundur,  21. feb. 2007.

rekstur dvalar- og hjúkrunarrýma.

315. mál
[13:19]
Hlusta

Fyrirspyrjandi (Sigurjón Þórðarson) (Fl):

Frú forseti. Framsóknarflokkurinn hefur ráðið þessum málaflokki vel á annan áratug og ég held að sé nóg komið. Þegar maður hlustar á hæstv. heilbrigðisráðherra, sem er nokkuð ný í starfi, virðist ekki vera um neina stefnubreytingu að ræða. Ég gat ekki betur heyrt en að þetta ætti að ráðast af einhverjum útboðum í stað þess að vera með skýra stefnu um að gera eigi þjónustusamninga með lágmarkskröfum til þess að ná fram þeim árangri sem þarf að nást í þessum málaflokki. Auðvitað eiga menn að skilgreina í hvað peningarnir eiga að fara. Þetta er ekki bara mín skoðun heldur kemur þetta fram m.a. hjá helstu sérfræðingum á sviði þessa málaflokks, sérfræðingum í öldrunarfræðum, að þetta sé leiðin til að ná árangri.

Ég minni á að á fundi í heilbrigðisnefnd síðastliðið haust komu aðstandendur aldraðra og sögðu frá því að þeir væru jafnvel farnir að leggja fram fé úr eigin vasa til þess að fá fyrir þá lágmarksþjónustu. Mér finnst það vera lágmarkskrafa til stjórnvalda að þau skilgreini hvaða þjónustu þau ætla að fá. Síðan verð ég að segja að mér finnst algjörlega ótækt þegar farið er af stað með ný hjúkrunarheimili og ekki verið með skýra stefnu hvað þetta varðar og það er í rauninni fyrir neðan allar hellur.

Ég vonast til þess að hæstv. heilbrigðisráðherra taki tillit til þeirra tilmæla sem koma fram hjá Ríkisendurskoðun þannig að við þurfum ekki að fara í gegnum sömu fréttatímana ár eftir ár þar sem sýnt er frá hjúkrunarheimilum þar sem algert ófremdarástand ríkir. Við viljum fá breytingar í þessum málaflokki og til þess að svo verði þarf ráðherra að taka einhverja stefnu í málaflokknum og skýra þá lágmarksþjónustu sem veita á fyrir opinbert fé.